Viðbúnaður vegna eins hreyfils flugvélar

Miðvikudagur 28. janúar 2009

Í dag klukkan 15:35 barst Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá Flugturninum í Reykjavík um eins hreyfils flugvél í vandræðum vegna ísingar. Flugvélin var á leið frá Grænlandi og átti eftir um 275 sjómílur til Reykjavíkurflugvallar. Áætlað var að lenda í Reykjavík kl. 1705.

Sett var af stað viðbúnaðarstig og stjórnstöð setti þyrlur Landhelgisgæslunnar og þyrlu danska varðskipsins Hvidbjörnen í viðbragðsstöðu. Einnig var bátum og skipum á svæðinu gert viðvart og fylgdust þeir með flugvélinni á leið hennar.

Flugvélin missti talsverða hæð og var komin í um 700 fet þegar hún náði sér upp í 3000 fet. Klukkan 1655 sér bátur vélina í u.þ.b. 2 sjómílna fjarlægð.

Flugvélin lenti örugglega á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:14.

280109/HBS