Reglugerð væntanleg um losun kjölfestuvatns

Föstudagur 13. febrúar 2009

Stjórnstöð LHG fékk í gær fyrirspurn frá olíuskipinu British Tranquillity, sem var á siglingu frá New York til Reykjavíkur, hvort skipið megi dæla út ballest eða kjölfestuvatni hér við land.

Haft var samband við Umhverfisstofnun og að því loknu var skipið beðið um að skipta um ballest áður en það kæmi inn í efnahagslögsöguna. Varð skipstjóri British Tranquility við því. Þegar skipið kemur til hafnar í Reykjavík mun Siglingastofnun fara um borð í skipið og sannreyna að farið hafi verið eftir leiðbeiningum vaktstjóra í stjórnstöð LHG.

Umhverfisstofnun vinnur nú að reglugerð sem fjallar um þetta efni og er þar stuðst við ályktun sem unnin var af IMO – International Maritime Organisation 9.-13. febrúar 2004.

Kjölfestuvatn er notað til að stuðla að stöðugleika skipa, t.d. ef þau flytja engan farm sbr. olíuskip eftir að þau hafa losað farminn. Vatninu er dælt í tanka skipa á suðrænum slóðum þar sem lífríki getur verið sérstakt fyrir það svæði, eða þar sem mengun er. Óheppilegt er talið að því vatni sé dælt (með öllu sem í því er) í hafið á okkar hafsvæði, dæmi eru um að lífverur frá fjarlægum stöðum hafi tekið sér bólfestu í lífkerfinu annarstaðar og valdið skaða, t.d. við Noreg.

13.02.2009/HBS