Aðgerðir LHG vegna samdráttar í rekstri útskýrðar í bréfi til starfsmanna

  • Gaeslan2

27. febrúar 2009

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fengu í gærdag bréf frá Georg Kr. Lárussyni forstjóra þar sem útskýrðar eru þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna samdráttar í rekstri stofnunarinnar.

Segir Georg í bréfinu að frá sl.hausti hafi verið leitað allra leiða til að hagræða í rekstri Landhelgisgæslunnar. Í janúar sl. var tilkynnt um fyrirhugaðar uppsagnir 20-30 starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Í framhaldinu var leitað eftir samráði við stéttarfélög starfsmanna skv. lögum um hópuppsagnir. Í lok janúar var uppsögnum slegið á frest meðan leitað var annarra leiða til að komast hjá uppsögnum og samráðsferli með stéttarfélögum starfsmanna gefinn hæfilegur tími. Því samráðsferli er nú formlega lokið.

 Þá segir Georg; „Lengst af leit út fyrir að segja þyrfti upp starfsfólki úr nánast öllum starfsstéttum en með launalausum leyfum, lífeyristöku, uppsögnum starfsmanna sjálfra og launalækkunum tókst að draga verulega úr fjölda uppsagna, í góðu samstarfi við starfsmenn og stéttarfélög þeirra.  Á árinu munu alls 35 starfsmenn Landhelgisgæslunnar hætta störfum, hefja töku launalauss leyfis, hefja töku lífeyris ýmist samhliða vinnu eða alfarið eða minnka starfshlutfall.  Stöðugildum hjá Landhelgisgæslunni hefur með þessu fækkað úr 168 í 137 á innan við ári en það er fækkun um tæp 20%.  Ekki þarf að fjölyrða um að þetta er mikil blóðtaka fyrir alla starfsemina“.  Í bréfinu kemur fram að miðað sé við að rekstur ársins verði í jafnvægi og að Landhelgisgæslan geti brugðist við ófyrirséðum útgjöldum

 “Öll bindum við vonir við að aðstæður í þjóðfélaginu og rekstrarumhverfinu almennt breytist til hins betra svo við náum okkur fljótt á strik að nýju” segir Georg í niðurlagi bréfsins. 

270209/HBS