Þakka björgun á Grænlandsjökli

Mánudagur 16. mars 2009

Stjórnstöð LHG fékk um helgina tvær skoskar stúlkur í heimsókn. Var önnur þeirra í hópi sem bjargað var þann 9. Júní 2007 af þyrlu LHG, TF-LÍF. Vildu stúlkurnar koma innilegu þakklæti til áhafnarinnar.

Saga björgunarinnar er sú að þann 9. júní 2007 hafði breska strandgæslan í Clyde á Skotlandi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands. Höfðu menn áhyggjur af hópi kvenna sem dvalið hafði við ísklifuræfingar á Grænlandsjökli. Við eftirgrennslan kom í ljós að Twin Otter flugvél sem flytja átti stúlkurnar til Íslands féll skyndilega niður um þunnt yfirborðslag íss á jöklinum með þeim afleiðingum að ekki náðist að rétta hana við. Vélin hafði verið að troða og herða snjóflugsbraut til að fara á loft aftur þegar óhappið varð. Sukku nefskíði vélarinnar í einskonar púðursnjó sem var undir þunnri ísskelinni. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Ákveðið var að kalla út þyrluáhöfn og lagði TF-LÍF lagði af stað um kl. 18. Flugið yfir til Grænlands gekk vel og lenti þyrlan á ísnum hjá Twin Otter flugvélinni um kl. 20 eftir að hafa komið stutta stund við á Ísafirði. Tveir flugvirkjar frá Flugfélagi Íslands ásamt flugstjóra voru skildir eftir við Twin Otter vélina. Var áætlað að einhvern tíma myndi taka að koma vélinni í loftið aftur.

Á meðan fór þyrlan og sótti konurnar að tjaldbúðum þeirra sem var í námunda við Borge Tinde. Eftir nokkra leit fann þyrlan kvennahópinn og var síðan flogið til Constable Point í um 160 mílna fjarlægð til að taka eldsneyti. Því var lokið um kl. 22:15 en einnig var vélin yfirfarin af flugvirkja og áhöfn Landhelgisgæslunnar áður en haldið var af stað til Íslands.TF-LÍF lenti heilu og höldnu á Ísafirði kl. 2:58 um morguninn og lauk þar með giftusamlegri aðstoð og aðgerð á Grænlandsjökli.

160309/HBS

Isklifurkonur_TFLIF_lendir

TF-LÍF lendir við tjaldbúðirnar

Ísklifurkonur Líf Grænland 100607
Ísklifurkonurnar komnar um borð í TF-LÍF