Þyrla leitar á Faxaflóa eftir tilkynningu um neyðarblys

  • neydablys

Miðvikudagur 8. apríl 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 22:28 í gærkvöldi tilkynning í gegn um Neyðarlínuna um að neyðarblys hefði sést á lofti norður frá Eiðistorgi. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ var við næturæfingar við Straumsvík með björgunarskipinu Einari Sigurjónssyni og fór samstundis til leitar.

Flaug þyrlan norður frá Eiðistorgi, að Akranesi og tilbaka. Skömmu síðar var leitarsvæðið fært þar sem tilkynning barst um aðra staðsetningu, vest-norð-vestur af svæðinu. Beiðnin var afturkölluð kl. 22:53 þar sem Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar hafði haldbærar sannanir fyrir því að þetta hefði verið flugeldur frá landi. Fór þyrlan þá aftur að Björgunarskipinu Einari Sigurjónsyni og næturæfingin kláruð.            

Er þetta þriðja tilfellið á tveimur mánuðum sem þyrla Landhelgisgæslunnar er kölluð út til leitar vegna neyðarblysa sem sjást á lofti og hefur leit ekki borið árangur. Í febrúar leitaði þyrla klukkustundum saman á Breiðafirði án árangurs og í mars mánuði  var leitað á Kollafirði, einnig án árangurs.

Ekki gera allir sér grein fyrir því að neyðarblys eru mjög mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur og utan hins hefðbundna flugeldatímabils þarf að sækja um sérstakt leyfi til að skjóta upp skoteldum. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fær oft á tíðum upphringingar frá sjómönnum og almenningi sem telja sig hafa séð neyðarblys og telst það vera mjög alvarlegt mál ef flugeldum er skotið upp án þess að hafa fengið til þess leyfi frá lögreglu, sem lætur m.a. stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita um viðburðinn.

Samkvæmt reglugerð um skotelda nr. 952/2003 er leyfilegt að selja og skjóta upp flugeldum frá 28. desember - 6. janúar ár hvert. Brot á reglum varðar sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, sbr. VII. kafla vopnalaga nr. 16 frá 25. mars 1998, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

080409/HBS