Eftirlit með karfaveiðum í umsjón gæsluflugvélar og varðskipa Landhelgisgæslunnar

  • Syn og varðskip

Föstudagur 17. apríl 2009

Landhelgisgæslan hefur um árabil stundað eftirlit með karfaveiðum innlendra og erlendra skipa á Reykjaneshrygg bæði með gæsluflugvélum og varðskipum. Fyrir nokkrum árum var fjöldi skipa að karaveiðum á þessu svæði frá þjóðum utan NEAFC en með samstilltu átaki aðildarþjóða NEAFC tókst að útrýma þeim og eru nú aðeins skip aðildarþjóðanna á svæðinu.

Í framhaldi af þeim árangri sem náðist við að útrýma þessum veiðum, sem á sínum tíma voru kallaðar sjóræningjaveiðar, en eru á alþjóðavettvangi nefndar IUU veiðar sem stendur fyrir “Illegal, Unreported and Unregulated fisheries”, hafa nú verið settar hertar reglur fyrir skip aðildarþjóðanna. Landhelgisgæslan sem eftirlitsaðili á svæðinu mun framfylgja þeim reglum af fullum þunga með samspili gæsluflugvéla, varðskipa og fjareftirlits, en Landhelgisgæslan fær staðsetningar allara skipa aðildarþjóða NEAFC sjálfvirkt inn í fjareftirlitskerfi stjórnstoöðvarinnar.  Einnig hafa verið notaðir lágfleygir radar gerfihnettir við þetta eftirlit í samstarfi við rannsóknarstofnun Evrópusambandsins. 

Landhelgisgæslan hefur ekki einungis stundað eftirlit með þessum veiðum, heldur hefur starfsmaður hennar átt sæti í eftirlits og tækninefndum NEAFC í fjölda ára í umboði sjávar- og landbúnaðarráðuneytisins.  Að auki er starfsmaður Landhelgisgælunnar formaður tækninefndar NEAFC. 

Í vikunni var haldið námskeið fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar um NEAFC Scheme of Control and Enforcement, með sérstaka áherslu á sérreglur vegna karfaveiða á Reykjaneshrygg.  Umsjón námskeiðisins annaðist Gylfi Geirsson sérfræðingur Landhelgisgæslunnar í málefnum NEAFC.

Á Reykjaneshrygg hefur verið sett upp sérstakt verndarsvæði fyrir karfa sem gerir sérstakar kröfur um aflamark, tímabil og tilkynningar.  Innan þessa verndarsvæðis má einungis veiða 70 % af heildarafla og aðeins 15 % af því á tímabilinu 1. apríl til 10. maí. Þá eru gerðar kröfur um daglegar aflatilkynningar innan svæðisins á móti vikulegum utan þess og tilkynningum þegar farið er inn og útaf þessu svæði. 

Í þessum sérreglum eru einnig ákvæði um að veiðileyfi skipanna séu einungis í gildi að því gefnu að allar tilkynningar þeirra beris skrifstofu NEAFC í London og þar með aðgengilegar fyrir eftirlitsmenn á svæðinu.  Á síðasta ári gátu ekki allar aðildarþjóðir NEAFC uppfyllt þetta ákvæði og sendi Landhelgisgæslan því út fjölda tilkynninga um brot á reglunum, svokallað “Notification of Serious Infringement”.  Í framhaldi af því var viðkomandi skipum neitað um þjónustu á Íslandi og komu í Íslenskar hafnir.

Forsíðumynd tók Jón Páll Ásgeirsson. Myndir á námskeiði Hrafnhildur Brynja.

 

NEAFC_hOPUR1

Hluti starfsmanna sem tók þátt í NEAFC námskeiði Landhelgisgæslunnar

 

NEAFC_Gylfi

Gylfi Geirsson, sérfræðingur Landhelgisgæslunnar í málefnum NEAFC
hafði umsjón með námskeiðinu

NEAFC_Redfish_2009

Meðfylgjandi er mynd úr kennslugögnunum sem sýnir svæðið og kröfur um tilkynningar.