Hlaut verðlaun NATO fyrir framúrskarandi frammistöðu

Miðvikudagur 22. apríl 2009

Sérfræðingur sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar var nýlega verðlaunaður fyrir framúrskarandi frammistöðu í yfirgripsmikilli NATO æfingu sem haldin var samtímis á fimm stöðum í Evrópu. Tólf þátttakendur af þrjú hundruð talsins hlutu verðlaunin, sem voru afhent formlega af Brigadier General Scott D.West sem er CO (Chief of staff) fyrir Joint Warefare Centre (JWC) NATO.

Okkar maður starfaði innan stjórnstöðvar sem sá um stjórnun æfingarinnar í heild sinni. Kallaðist hún EXCON (Exercise Control) og var í æfingarbúðum JWC í Stavanger í Noregi. Var hann staðsettur í svokölluðu C-IED cell hluta (Counter - Improvised Explosive Devices) sem sá um hryðjuverkasprengjur á landi og í sjó en IED er skammstöfun fyrir hryðjuverksprengjur.

Counter hluti stjórnstöðvarinnar er tiltölulega nýr af nálinni en þar er unnin rannsókna- og greiningarvinna varðandi sprengjur og eru niðurstöðurnar notaðar til fyrirbyggjandi aðgerða.  C-IED er stjórnstöð fyrir allar sprengjusveitir sem taka þátt í æfingu sem þessari. Eins og fyrr segir fer þar fram rannsóknar- og greiningarvinna eftir að sprengjan hefur verið gerð óvirk, eða þá eftir að hún springur. Fer þá í gang ákveðið ferli þar sem reynt er að koma í veg fyrir fleiri sprengjur með fyrirbyggjandi aðferð sem unnin er úr þeim sönnunargögnum sem fást úr rannsóknunum. Þannig er reynt að komast inni í ferlið hjá hryðjuverkamönnunum áður en að þeim tekst áætlunarverkefnið sitt.

Undirbúningur æfingarinnar hefur staðið yfir frá ársbyrjun 2009 en þróa þarf handrit sem felur í sér atburð sem á sér stað í löndum þar sem mikill órói hefur átt sér stað og NATO þarf að bregðast við og senda inn herlið til aðstoðar. Framkvæmdin innifelur flóttamenn, sjórán, flugrán, sprengjur, efnavopn, kjarnorku og í rauninni allt sem hugsanlega getur gerst. Sérhvert inngrip eða atburður hefur áhrif á allar aðrar stöðvar og ákvarðanir æfingarinnar.  

Stjórnstöðinni í Noregi var skipt upp í navy, airforce, army og special forces. Hlutverk þeirra var að setja út verkefni sem viðbragðsaðilar annarra stjórnstöðva í Evrópu þurftu að bregðast við. Eftir viðbrögð þeirra fengu þeir svar tilbaka eftir því hversu vel eða illa þeim tókst til. 

Fyrir sprengjusveit Landhelgisgæslunnar er mjög mikill heiður að vera boðið að taka þátt í æfingu sem þessari en þetta er fyrsta skiptið sem Íslendingar taka þátt. Með þátttökunni fæst góð innsýn í framkvæmd og skipulag æfinga NATO en æfingin Northern Challenge sem er í umsjón sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar fer fram á Íslandi og er komin með fastan sess innan æfingaráætlunar NATO.

220409/HBS

EOD_Technician_on_task

Sprengjusérfræðingur að störfum