Landhelgisgæslan stendur fleiri sjóræningja að verki

Fimmtudagur 22. júní 2006.

Í gær fór flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, í eftirlitsflug yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg.  Alls voru 53 togarar að veiðum á slóðinni rétt við mörk íslensku efnahagslögsögunnar en þar af voru 43 erlendir og 10 íslenskir. Í hópnum var einnig eitt erlent birgðaskip. Af þessum 43 erlendu skipum voru 7 sjóræningjaskip á slóðinni en það voru skipin Dolphin, Pavlovsk, Eva, Isabella, Rosita og Carmen sem skráð eru í Georgíu og Santa Nicolas sem er skráð í Honduras.

 

Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar kom síðan að áttunda sjóræningjaskipinu, Ulla frá Georgíu, þar sem það lá bundið utan á frystiskipinu Polestar frá Panama og verið var að lesta á milli skipanna. Skipin voru stödd 152 sjómílur suðsuðvestan við meginflotann sem var að veiðum við lögsögumörkin.  Polestar er nú komið á svarta lista Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins vegna þjónustu sinnar við sjóræningjaskip.

 

Þegar Syn nálgaðist skipin Polestar og Ulla sást að skipverjar lokuðu lestum í hasti og reyndu þannig að koma í veg fyrir að upp kæmist um hvað áhafnir voru að aðhafast.  Er áhöfn Synjar kallaði upp skipstjórann á Polestar héldu skipverjar því fram að þeir væru að flytja umbúðir og veiðarfæri yfir í Ulla. Þegar Landhelgisgæslan hefur komið að skipum sem þjónusta sjóræningjaskip hefur það gerst fjarri meginflotanum eins og í gær en þannig eru minni líkur á að upp komist um athæfi þeirra.

 

Landhelgisgæslumenn hafa grun um að ýmsu fleiru sé umskipað enda ólíklegt að stórt frystiskip eins og Polestar sé eingöngu notað til að flytja umbúðir og veiðarfæri.  Polestar var fyrst staðið að verki við að þjónusta sjóræningjaskip í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar 9. júní sl.  Sjá frétt um það á slóðinni:

http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=2922

 

Skýrsla um málið verður send til sjávarútvegsráðuneytisins og Norðaustur- Atlantshafsfiskveiðiráðsins þar sem málið verður tekið fyrir.

 

Meðfylgjandi myndir tók Tómas Helgason flugstjóri í áhöfn Synjar.

Dagmar Sigurðardóttir                      Halldór Benóný Nellett
lögfræðingur/upplýsftr.                      framkvæmdastjóri aðgerðasviðs

 

 

Hér má greinilega sjá tóm bretti (pallettur) aftan við eina lestarlúguna. Slík bretti eru venjulega notuð til að umskipa fiskikössum.