Nýtt rafrænt sjókort fyrir Snæfellsnes

Fimmtudagur 7. maí 2009

Á morgun kemur út hjá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar nýtt rafrænt sjókort fyrir Snæfellsnes. Hafa þá verið gefin út 22 íslensk rafræn kort í ýmsum mælikvörðum. Tilkoma rafrænna sjókorta hefur fyrst og fremst í för með sér aukið öryggi fyrir skip og áhafnir þeirra en samkvæmt reglum um björgunar og öryggisbúnað íslenskra skipa þarf sérhvert skip yfir sex metrum að hafa um borð nýjustu útgáfu nauðsynlegra sjókorta, rafræn eða lögleg prentuð sjókort.

Í ársbyrjun 2006 hóf Landhelgisgæslan útgáfu rafrænna sjókorta (Electronic Navigational Charts, ENC) en útgáfa þeirra er sögð vera eitt mesta framfaraspor til öryggis fyrir sjófarendur síðan ratsjáin kom fram. Kortin eru birt í rafrænum sjókorta- og upplýsingakerfum (ECDIS) og þau uppfylla skilyrði Alþjóðasjómælingastofnunarinnar. Sjómælingasvið ber ekki ábyrgð á öðrum stafrænum kortum sem framleidd eru af einkaaðilum.  Aðeins tveir dreifingaraðilar eru fyrir vottuð rafræn sjókort í Evrópu;  www.ic-enc.org og www.primar.no . Frekari upplýsingar um rafræn sjókort má fá á heimasíðum áður nefndra dreifingaraðila og  hjá söluaðilum siglingatækja. 

Í Solas reglugerð Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um  skip og öryggi mannslífa á hafinu kemur fram að öllum skipum ber skylda til að  hafa um borð uppfærð sjókort, annað hvort prentuð eða opinber rafræn.

Rafræn sjókort eru framleidd ýmist á rasta- eða vigurformi (vektor). Landhelgisgæslan framleiðir opinber vigur sjókort sem eins og fyrr segir uppfylla skilyrði Alþjóðasjómælingastofnunarinnar. Þessi kort eru einu vigur sjókortin sem nota má í staðinn fyrir prentuð sjókort.

Vigurkort eru búin til með því að gefa öllum línum, punktum og flötum ákveðin gildi. Þegar þessi gögn eru notuð í siglingatölvum er hægt að setja saman kort á þá vegu sem notandanum hentar í hvert skipti en ákveðnar grunnupplýsingar verða þó að koma fram. Vigurkort hafa ákveðna „greind“ og hægt er að nota gagnagrunninn til að gera fyrirspurnir; einnig er hægt að láta kerfið vara við hættum á áætlaðri siglingaleið miðað við stefnu, hraða og djúpristu skipsins. Notandinn getur einnig fengið upplýsingar um öll þau fyrirbæri sem sjást á kortinu. Framleiðsla og gæðaeftirlit rafrænna vigurkorta er flókið, tímafrekt og kostnaðarsamt. Notagildið er mun meira en á rastakortum sem eru skönnuð sjókort sem eru kölluð fram í siglingatölvum en myndin hefur enga „greind“ og ekki er hægt að gera fyrirspurnir í kerfinu.

Sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands hefur það meginhlutverk að sjá sjófarendum við strendur Íslands fyrir sjókortum og ýmsum öðrum sjóferðagögnum er stuðla að öruggri siglingu. Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar stundar sjómælingar og gefur út yfir 60 prentuð sjókort, yfirsiglinga-, strandsiglinga- og hafnakort auk áðurnefndra rafrænna sjókorta.

Nánari upplýsingar um rafræn sjókort hér

Sjá ennfremur grein um ENC:

Kort_SnaefellsnesE37

Rafrænt kort fyrir Snæfellsnes

Islensk_ENC_080509

Myndin sýnir þau svæði sem til eru á rafrænu formi.