Fagmannleg vinnubrögð - sjúkraflug út á Reykjaneshrygg

Miðvikudagur 14. júní 2006.

Skipherrann á færeyska varðskipinu Brimil sendi Landhelgisgæslunni nýlega meðfylgjandi myndir sem teknar voru frá skipinu er áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar sótti slasaðan sjómann um borð í Brimil úti á Reykjaneshrygg um mánaðarmótin síðustu. Þess ber að geta að sjómanninum heilsast ágætlega eftir hremmingarnar.

Sjómaður á norska togaranum Koralen hafði slasast og var færður yfir í Brimil. Áhöfn Lífar sótti hann þangað. Sjúkraflugið tók tæpar þrjár klukkustundir.

Skipherrann á Brimli hafði orð á því í tölvupósti með myndunum að þarna hafi verið mjög fagmannlega að verki staðið og óskaði upplýsinga um börurnar sem áhöfn Lífar notar.

Áhöfnina á Líf skipaði að þessu sinni Jakob Ólafsson þyrluflugstjóri, Björn Brekkan Björnsson þyrluflugmaður, Friðrik Höskuldsson stýrimaður/sigmaður, Reynir G. Brynjarsson flugvirki/spilmaður og Friðrik Sigurbergsson læknir.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.