AIS tæknin leysir sjálfvirku tilkynningaskylduna (STK) af hólmi

Mánudagur 24. ágúst 2009

Eftir sextán mánuði eða þann 1. janúar 2011 mun AIS - sjálfvirkt auðkennikerfi skipa leysa af hólmi Racal STK kerfi í ferilvöktun skipa. Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tók fyrsta skref í breytingum þessum innan fjarskipta og ferilvöktunar skipa í júlí síðastliðnum á hafsvæði A1 þegar vaktstöð siglinga tók upp til reynslu fjarskipti með stafrænu valkalli á metrabylgju eða DSC-VHF (Digital select calling – very high frequency).

Vegna þessa hefur Samgönguráðuneytið sett reglugerð nr. 565/2009 um breytingu á reglugerð nr. 672/2006 um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa. Með gildistöku reglugerðarinnar geta skip tilkynnt staðsetningu sína til vaktstöðvar siglinga með sjálfvirku auðkennikerfi skipa (AIS - Automatic Identification System) með sama hætti og með svokölluðum STK tækjum. Evrópureglur ná til skipa yfir 15 metrum að lengd og notast þau við AIS-A tæki. Skipum undir 15 metrum verður heimilt að nota AIS-B tæki sem eru einfaldari að gerð og ódýrari. Vaktstöð siglinga mælir eindregið með að sjófarendur fari strax að huga að endurnýjun búnaðar í skipum og bátum sínum.

Eftir 1. janúar 2010 verður öllum nýsmíðuðum skipum gert að vera búin DSC-VHF búnaði og eftir 1. janúar 2011 verða öll skip, sem rekin eru í atvinnuskyni að vera búin DSC-VHF búnaði til fjarskipta á hafsvæði A1 ásamt AIS-A eða B tæki, háð stærð þeirra, til ferilvöktunar. DSC–VHF tæki er búið neyðarhnappi sem kemur í stað neyðarhnappsins á núverandi STK-tæki en auk þess er DSC búnaðurinn með ýmsa möguleika í sendingum staðlaðra skeyta og einnig er hægt að kalla upp einstök skip frá strandastöðvum og fá sjálfvirka svörun. Sjá nánar upplýsingar á vef Siglingastofnunar.


240809/HBS