Sameinuðu þjóðirnar gera úttekt á alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar

10. september 2009

Landhelgisgæslan mun í dag taka þátt í æfingu Alþjóðabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem settar eru á svið aðstæður sem skapast eftir eftir að jarðskjálfti upp á 7.4 á Richther verður í eyríkinu Thule. Björgunarsveitin er sett í viðbragðsstöðu en ekki hefur verið óskað eftir alþjóðlegri aðstoð en fréttaflutningur bendir til þess að svo muni verða innan skamms. Að minnsta kosti 50 manns eru látnir, slasað fólk fyllir heilbrigðisstofnanir landsins og skemmdir á húsum og vegakerfi eru miklar.

Þessi umfangsmikla æfing er sett upp vegna úttektar INSARAG (International Search and Rescue Advisory Group) á henni. INSARAG eru samtök alþjóðarústabjörgunarsveita sem starfa undir hatti Sameinuðu þjóðanna og samkvæmt reglum frá INSARAG er gert ráð fyrir að alþjóða björgunarsveitir þurfi að uppfylla ákveðnar kröfur til að teljast fullgildar. Gerð er úttekt á sveitum og standist þær hana fá þær ákveðinn gæðastimpil (External Classification). Íslenska sveitin ein af fyrstu sveitum í  heiminum sem undirgengst slíka úttekt. Gera má ráð fyrir að yfir 100 manns komi að verkinu auk björgunarsveita og slysavarna/kvennadeilda á Snæfellsnesi.

Æfingin fer fram á Gufuskálum 9.- 13. september og hingað til lands er komið 10 manna úttektarteymi INSARAG. Einnig eru rúmlega 20 manns frá sveitum víðs vegar að úr heiminum sem bráðlega fara í úttekt til að fylgjast með og læra af reynslu íslensku sveitarinnar. Undirbúningur sveitarinnar fyrir þessa æfingu hefur staðið yfir í langan tíma; sveitin hefur æft vel auk þess sem mikil pappírsvinna fylgir þessu ferli.

Æfingin er keyrð á eins raunverulegan hátt og kostur er. Sveitin fer utan á vegum íslenska ríkisins og því þarf  utanríkisráðherra, f.h. ríkisstjórnar íslands, að samþykkja förina. Einnig þurfa meðlimir sveitarinnar að fara í gegnum hefðbundna tollskoðun og vegabréfaeftirlit, þess er gætt að allir séu með fullgildar bólusetningar til að starfa í „skaðalandinu“ og fréttatilkynningar verða sendar reglulega til fjölmiðla á meðan á æfingu stendur.

Úr fréttatilkynningu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

 SL_thyrla

Mynd SL-Oddur E. Kristinsson