Hafís undan Vestfjörðum - olíuskip sigldi í gegn um svæðið

Mánudagur 5. Október 2009

Nokkrar tilkynningar um hafís hafa borist Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/ Vaktstöð siglinga síðastliðna sólarhringa. Nokkrir ísjakar hafa sést við Vestfirði, nánar tiltekið frá norð-austanverðu Horni allt að minni Önundarfjarðar. Stjórnstöð hafði í morgun samband við togara á svæðinu undan Vestfjörðum og áréttaði að skipin létu stjórnstöð strax vita ef vart yrði um hafís á svæðinu þannig að upplýsingum yrði komið til skipa sem leið eiga um svæðið.

Stjórnstöðin sendir ávallt út hafístilkynningar og les þær upp í fjarskiptabúnaði stöðvarinnar, einnig fer TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar í hafísflug þegar þörf er á. Þeir ísjakar sem skip hafa séð undanfarna daga undan Vestfjörðum hafa ekki komið fram á gervitungamyndum en geta engu að síður verið hættulegir skipum því einungis 1/10 af þeim er ofansjávar.

Nokkrar áhyggjur vöktu því fregnir af siglingu olíuskipa um íslensku efnahagslögsöguna en annað skipanna valdi að sigla vestur fyrir land í afleitu veðri, þar sem hætta var á hafís. Bæði skipin voru með óvenju stóran farm af hráolíu eða um 106.000 tonn hvort. Voru þau á siglingu í gegn um hafsvæðið frá Rússlandi til Bandaríkjanna en þess má geta að algengara er að um svæðið sigli skip með 50-60 þúsund tonn af hráolíu.  Bæði skipin töldu sig ekki þurfa að tilkynna siglingu til vaktstöðvarinnar en eftir að haft var samband við skipin sendu þau nauðsynlegar upplýsingar. Vegna misbrests á tilkynningum til stjórnstöðvar frá þessum olíuskipum verður haft samband við siglingaumferðarmiðstöðina í Vardö og áréttað að skip sem þessi sendi tilkynningar tímanlega um komur sínar inn í íslenska  lögsögu.

Hafis_Graenland
Úr myndsafni LHG - Kanadískt varðskip á siglingu í hafís

051009/HBS