Ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC)

16. nóvember 2009

Dagana 9.-13. nóvember 2009 fór fram ársfundur Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) í höfuðstöðvum nefndarinnar í London.

Í frétt á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að þar var staðfestur samningur strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerður var í október síðastliðnum. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni. Þar var aflamark lækkað milli ára úr 14.500 tonnum í 8.600 tonn. Ísland ásamt Noregi sat hjá við þá samþykkt enda hafa ríkin undanfarin ár stutt bann við veiðum í samræmi við ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES).

Í skýrslu sem Alþjóða hafrannsóknaráðið gaf í vor út um stofngerð úthafskarfa var staðfest  að tvo stofna úthafskarfa er að finna á Reykjaneshrygg, efri og neðri stofn. Þessu hafa íslenskir fiskifræðingar ásamt erlendum vísindamönnum haldið fram um margra ára skeið. Rússnesk stjórnvöld mótmæltu niðurstöðu ráðsins og halda því fram að einungis sé um einn stofn að ræða. Í vor hófust viðræður strandríkja við aðrar aðildarþjóðir NEAFC um úthafskarfa og í haust var einnig rætt við sendinefnd Rússlands um afstöðu þeirra í málinu. Í ljósi mikilla veiða rússneskra skipa á Reykjaneshrygg var lögð áhersla á að ná fram málamiðlun fyrir árið 2010 til að koma í veg fyrir stjórnlausar veiðar á svæðinu á næstu vertíð, þar sem ljóst var að rússnesk yfirvöld gætu ekki fallist á aðskilda veiðistjórnun efri og neðri stofns úthafskarfa. Samningurinn um stjórnun veiða fyrir árið 2010 byggist að mestu á samþykkt þeirri sem gerð var fyrir árið 2009.

Samþykktar voru reglur til að bæta bæði eftirlit með veiðunum og löndun afla en misbrestur hefur verið á að aflaskýrslur, einkum frá aðildarríkjum ESB,- skili sér til NEAFC. Þá hefur íslenskum eftirlitsmönnum ekki verið heimilað að fylgjast með löndunum karfa skipa ESB þó ýtrekað hafi verið eftir því leitað síðastliðið sumar. Nú þegar er veitt langt umfram ráðgjöf og því mikilvægt að hægt sé að fylgjast með afla skipa allra aðildarríkja NEAFC. Samningurinn var samþykktur af öllum aðildarríkjum NEAFC utan ESB. Íslensk stjórnvöld eru langt frá því að vera sátt við að þurfa að samþykkja óbreytta stjórnun enda telja þau að fylgja beri vísindalegri ráðgjöf og aðskilja stjórn veiða úr efri og neðri stofni. Áfram verður unnið að því markmiði. 

Sá mikilvægi árangur náðist að samþykkt var bann við brottkasti helstu fisktegunda á samningssvæði NEAFC. Því miður gátu ekki öll aðildarríki NEAFC stutt tillöguna vegna reglna heima fyrir sem leyfa brottkast. 

Hér má sjá fréttina í heild sinni á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.