Viðbúnaður vegna netabáts sem datt úr ferilvöktun Landhelgisgæslunnar

  • TYR_Akureyri44

Föstudagur 30. mars 2010

Mikill viðbúnaður hófst síðdegis þegar tuttugu tonna netabátur með þrjá menn í áhöfn datt út úr ferilvöktun Landhelgisgæslunnar kl. 17:37 í NV- verðum Húnaflóa. Hófst þá eftirgrennslan hjá varðstjórum Landhelgisgæslunnar sem ekki bar árangur. Voru þá Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þau Húnabjörg frá Skagaströnd ásamt Gunnari Friðrikssyni frá Ísafirði kölluð út auk þess sem ferðaþjónustubátur frá Ingólfsfirði á Stöndum var beðinn um að stefna að síðasta þekkta stað netabátsins.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem nýlent var á Reykjavíkurflugvelli var send í loftið auk þess sem varðskip var sett í viðbragðsstöðu og beðið um að stefna á staðinn. Skipverjar á netabátnum höfðu samband við varðstjóra Landhelgisgæslunnar Kl. 19:15 og gátu látið vita af ferðum sínum. Hafði þá komið upp bilun í ferilvöktunarbúnaði sem olli því að staðsetningar netabátsins hættu að berast Landhelgisgæslunni. Var þá öllum aðilum gert viðvart og útkallið afturkallað.