Varðskipið Ægir siglir af stað í landamæraeftirlit fyrir Evrópusambandið

Miðvikudagur 21. Apríl 2010

Varðskipið Ægir lagði úr Reykjavíkurhöfn kl. 22:00 í gærkvöldi áleiðis til Senegal en þar og á vestanverðu Miðjarðarhafi mun varðskipið næstu 6 mánuði sinna landamæraeftirliti fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins.

Skipið siglir til Dakar í Senegal með viðkomu í Las Palmas á Kanaríeyjum þar sem stjórnstöð Frontex er staðsett. Skipið verður við gæslu undan ströndum Senegal til 3. júlí og heldur þá í Miðjarðarhaf til Almería á Spáni en þaðan verður skipið gert út við eftirlit í vestanverðu Miðjarðarhafi fram í október.

Verkefnið er mikil og góð reynsla fyrir starfsmenn auk sem það skapar Landhelgisgæslunni tækifæri til að ráða fleiri starfsmenn tímabundið til starfa. Einar H. Valsson skipherra Ægis var í vikunni formlega fastráðinn sem skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Einar starfað hjá Landhelgisgæslunni frá árinu 1981 en Einar var fyrst lögskráður á varðskip Landhelgisgæslunnar sem messagutti. Fyrstu ferð sína sem stýrimaður fór Einar þann 17. júlí 1985, daginn eftir að hann fékk stýrimannsskírteinið í hendurnar.  Hann lauk svo fjórða stiginu 1988. Einar hefur á starfsferlinum siglt sem afleysingaskipherra allnokkur ár og leyst af á Óðni, Tý og Ægi.  Fyrsti túrinn sem afleysingaskipherra var í september 1995 og var það í Smugunni. 

Landhelgisgæslan óskar áhöfninni góðrar ferðar og gengis á nýjum, spennandi og án efa lærdómsríkum vettvangi.

 

2010-04-20,_Ahofn

Áhöfnin stillir sér upp fyrir brottför

20042010IMG_2567

Gylfi Geirsson, framkvæmdastjóri, Snorre Greil yfirstýrimaður, Svanhildur
Sverrisdóttir, starfsmannastjóri og Georg Kr. Lárusson forstjóri
Landhelgisgæslunnar skoða sjóleið skipsins

20042010EinarIMG_2595

Einar Valsson skipherra.

20042010IMG_2568

Halldór Nellet, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs skoðar sjókorn með
Guðmundi Ragnari Magnússyni stýrimanni.

20042010IMG_2606
Létt var yfir áhöfninni þegar lagt var frá bryggju