Eftirlit úr lofti með TF-FMS

  • TF-FMS.  Ljósmynd Baldur Sveinsson

Mánudagur 13. september 2010

Eins og kunnugt er sinnir flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF nú tímabundnum verkefnum erlendis fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Meðan á því stendur býðst Landhelgisgæslunni að leita til flugvélar Mýflugs TF-FMS, þegar hún er tiltæk. Er þó ætíð nauðsynlegt að tveir skipstjórnarmenn frá Landhelgisgæslunni séu um borð með eftirlitsbúnað. TF-FMS er ekki sérútbúin til eftirlitsstarfa en hún er með búnað til að greina skip ( AIS búnað) og einfaldan radar búnað, er hún auk þess með ágæta útsýnisglugga til leitar. Flugvélin er er engu að síður ekki ákjósanleg til langvarandi löggæslu- og eftirlitsstarfa eins og TF-SIF er ætlað að geta gert enda hefur hún ekki sambærilegt langdrægi, flugþol né aðstöðu fyrir áhöfn.

Síðastliðinn laugardag fóru skipstjórnarmenn Landhelgisgæslunnar í eftirlitsflug með TF-FMS og var flogið um hafsvæðið út Faxaflóa og djúpslóð að Halamiðum þar sem ellefu íslenskir togararar voru að veiðum. Samband náðist við togara sem sagði ufsaveiði góða á svæðinu en ekkert hafði veiðst af þorski í tvo daga.

Hefur TF-FMS áður verið notuð í fjarveru eða sem viðbót við flugvél Landhelgisgæslunnar og er öryggi að geta leitað til Mýflugs þegar nauðsyn þykir en áætlað er áframhaldandi eftirliti úr lofti með flugvélinni.

Mynd Baldur Sveinsson.