Bátur vélarvana á Breiðafirði

Miðvikudagur 9. mars 2011

Landhelgisgæslunni barst kl. 19:01 aðstoðarbeiðni frá fiskibát sem var vélarvana um ½ sjómílu austur af Elliðaey á Breiðafirði. Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Stykkishólmi var kallað út auk þess sem fiskibáturinn Þórsnes II fór frá Stykkishólmi kl. 19:11 með tvo björgunarsveitarmenn. Einnig var TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar beðin um að stefna á staðinn en hún var að koma frá Ísafirði þar sem sprengjusveit var við sprengjueyðingu.

Kom Þórsnes II að bátnum kl. 19:40 og tók hann í tog, var að öðru leyti í lagi um borð. Um sama leyti kom TF-LÍF að bátnum en ekki var talin þörf á aðstoð þyrlunnar og hélt hún því beint til Reykjavíkur.