Yfirlit aðgerðarsviðs LHG fyrir mars

  • Tyr_a

Fimmtudagur 14. apríl 2011

Samkvæmt yfirliti mars mánaðar frá aðgerðarsviði Landhelgisgæslunnar fóru þyrlur Landhelgisgæslunnar í sex útköll, sjö gæsluflug og eitt hafísflug á tímabilinu. Fjögur útköll voru afturkölluð. Samtals fluttu þyrlur LHG fimm einstaklinga á sjúkrahús. TF-LÍF fór í 500 tíma skoðun sem áætlað að ljúki um miðjan aprílmánuð. Eftirlitsflugvélin TF-SIF hefur verið í uppfærslu í Kanada og er hún væntanleg til landsins um miðjan apríl.

Í mánuðinum hafði aðgerðarsvið meðal annars afskipti af smærri skipum og bátum vegna lögskráningarmála í ólestri. Haft var samband við fjörtíu og sex báta vegna þessa og voru skipstjórar eða forráðamenn harðlega áminntir. Einnig voru sex bátar án haffæriskírteinis og fengu þeir sömu afgreiðslu. Auk þess hafa komið upp nokkur mál vegna lögskráningar áhafna. Í mars var einnig sett skyndilokun svæðis á Selvogsbanka eftir að varðskipsmenn mældu smáýsu í afla togbáts.

Meðal sérstakra verkefna aðgerðarsviðs má nefna spilprófanir um borð í grænlenskum togara eftir viðgerð á Akureyri, einnig barst tilkynning frá Faxaflóahöfnum um að ljósdufl við Brekkuboða væri komið á rek. Þyrla og varðskipið Týr fundu duflið og kom Týr duflinu svo að bryggju á Grundartanga. Í kjölfarið setti varðskipið út nýtt dufl við Brekkuboða. Síðar í ferðinni var skipt út öldumælisdufli undan Kögri.
Varðskipið Týr kom með stálpramma til Reykjavíkur sem fannst á reki og stafaði sjófarendum mikil hætta af honum. Hugsanlega sami prammi og flugvél Landhelgisgæslunnar sá suður af landinu á síðasta ári.

IMG_2521
Köfunarnemar ásamt leiðbeinendum við komuna til hafnar. Mynd SHS.

Ýmsar æfingar hafa farið fram í mars. Varðskipið Týr tók um borð köfunartank sem notaður var við köfunaræfingar kafaranema í Hvalfirði. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og Ríkislögreglustjóra. Einnig var haldin eldvarnaræfing um borð í Ægi fyrir nýja slökkviliðsmenn hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þeir voru fluttir um borð með þyrlunni TF-GNÁ en að æfingu lokinni skilað varðskipið þeim í land.

Einnig lagðist varðskipið Týr að bryggju á Tálknafirði og var skipið til sýnis fyrir bæjarbúa.

Veiðar erlendra skipa

Nokkur erlend skip voru við veiðar innan lögsögunnar í mánuðnum. Grænlendingar voru með eitt loðnuskip sem hefur leyfi til veiða og aflaði það 8.500 tonnum í febrúar. Heildarkvóti þeirra er 23.000 tonn, og eiga þeir þá eftir um 14.500 tonn. Í byrjun marsmánaðar var kvóti þeirra minnkaður niður í 12.870 tonn og kláruðu þeir þann kvóta 9. mars. Færeyingar hættu veiðum  þann 11. mars en þeir voru með fjögur loðnuskip. Afli þeirra var samtals 19.034 tonn. Heildarkvóti þeirra er 19.500 tonn og eiga þeir þá eftir um 466  tonn. Einnig hafa þrír færeyskir línubátar verið hér við veiðar. Norsk línuveiðiskip sem hefur leyfi til veiða í lögsögunni hóf veiðar í mánuðinum.

Skipaumferð til landsins.

Samkvæmt sam-Evrópska tilkynningakerfinu SafeSeaNet bárust tilkynningar um 157 hafnarkomum erlendra skipa til íslenskra hafna í mars mánuði.

Elektron
© Ede
Vesseltracker.com

Eitt skip var flokkað undir aðra tegundir en var þetta skipið ELEKTRON/CS: LADA sem kom til Mjóeyrahafnar, sjá mynd.
Samtals tilkynntu tuttugu og fimm skip um hættulegan farm.
Auk þess komu fjórtán erlend fiskiskip til íslenskra hafna, svo og einn erlendur dráttarbátur sem dró tvo  pramma til Færeyja.
Engar kærur voru sendar til lögreglu í mars mánuði.