Umfangsmikil leit að tveimur vélsleðamönnum á Langjökli í nótt - Þeir fundust heilir á húfi

Föstudagur 14. apríl 2006.
 
Mikil leit var gerð að tveimur vélsleðamönnum í nótt en ættingjar létu vita í gærkvöldi að þeirra væri saknað eftir að þeir höfðu ekki skilað sér úr vélsleðaferð á Langjökli.
Neyðarlínan lét stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga vita rétt upp úr miðnætti að mannanna væri saknað. Ekki var strax óskað eftir þyrlu.  Ekki leið þó á löngu þar til talið var nauðsynlegt að senda þyrlu á svæðið og kom beiðni um það kl. 00:45. 

Áhöfn Lífar, björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í framhaldinu.  Hún fór í loftið kl. 1:43.  Einnig var óskað eftir aðstoð flugvélar Flugmálastjórnar, TF-FMS, og fór hún af stað kl. 3:47.  Flugmálastjórnarvélin var bæði notuð við leit og sem endurvarpi við fjarskipti á leitarsvæðinu. Líf kom aftur til Reykjavíkur kl. 4:20 til að taka eldsneyti og var skipt um einn mann í áhöfn.  Síðan hélt þyrlan aftur til leitar. 

Um kl. 5:30 var óskað eftir þyrlu Varnarliðsins til aðstoðar. Er áhöfnin hafði kynnt sér aðstæður og fengið úthlutað leitarsvæði, fór þyrlan í loftið eða kl. 7 í morgun.

Kl. 7:08 tilkynnti áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar að hún hefði fundið tvo yfirgefna vélsleða í Hallmundarhrauni 3.3 mílur norðan við Eiríksjökul. Við það breyttist leitarsvæðið talsvert og fann þyrla Varnarliðsins mennina um tíuleytið 4 mílur austur af staðnum þar sem sleðarnir fundust. Þeir voru heilir á húfi.

Líf, björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, var þá komin til Reykjavíkur og önnur áhöfn komin út á flugvöll rétt í þann veginn að fara í loftið á björgunarþyrlunni Sif.

Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna og annarra viðbragðsaðila tók þátt í leitinni.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Úr myndasafni. Líf á Langjökli.