Þrjú erlend karfaskip á Reykjaneshrygg - þar af eitt sjóræningjaskip

Föstudagur 31. mars 2006.

Karfaveiðar á Reykjaneshrygg eru nú að komast í fullan gang og þrjú erlend skip komin á slóðina.

Í eftirlitsflugi Synjar, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar, í dag sá áhöfnin karfaskip sem skráð er í Georgíu á siglingu u.þ.b. 15 sjómílur utan við íslensku efnahagslögsöguna suðvestur af Reykjanesi. Það er innan fiskveiðistjórnunarsvæðis Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

Skipið heitir Pavlovsk og er eitt af sjóræningjaskipunum sem skráð eru á lista NEAFC yfir skip sem veiða án leyfis og kvóta á fiskveiðistjórnunarsvæði nefndarinnar. Sjá listann yfir sjóræningjaskip á eftirfarandi slóð:
http://neafc.org/measures/iuu_b.htm

Syn flaug tvisvar yfir skipið og í bæði skiptin var það með veiðarfærin uppi á þilfari þannig að það var ekki staðið að ólöglegum veiðum að þessu sinni.

Hin skipin tvö eru bæði lögleg og með leyfi. Annað rússneskt og hitt frá Lettlandi.

Hafsteinn Heiðarsson flugstjóri á Syn tók meðfylgjandi mynd af sjóræningjaskipinu Pavlovsk í eftirlitsfluginu í dag.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Sjóræningjaskipið Pavlovsk á siglingu. Veiðarfærin uppi á þilfari.