Þyrla tekur þátt í leit á Reykjanesi - staðsetning í síma olli misskilningi.

Miðvikudagur 7. september 2011

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 03:38 í morgun eftir að lögreglan á Suðurnesjum óskaði eftir aðstoð hennar við leit að tveimur piltum sem villtust norður af Fagradalsfjalli á Reykjanesi í gærkvöldi. TF-LÍF fór í loftið kl. 04:28.  Þegar komið var á vettvang sást fljótlega ljós í nætursjónaukum þyrluáhafnar sem reyndust vera piltarnir. Lent var hjá þeim og voru þeir, ásamt nærstöddum björgunarsveitarmönnum fluttir til Grindavíkur. Þaðan flaug þyrlan til Reykjavíkur og lenti kl. 05:10.

Svo virðist sem staðsetning sem kom upp á I-Phone síma piltanna hafi valdið ákveðnum misskilningi. Talið er að staðsetningin sem fengin er með innbyggðum GPS í símanum hafi verið sett upp í gráðum, mínútum og sekúndum en ekki gráðum, mínútum og hundruðustu hlutum úr mínútu. 

Skeikar því þó nokkuð um staðsetningu en leitað hafði verið út frá því að hnitin sem gefin höfðu verið upp væru gráður, mínútur og hundruðustu hlutar úr mínútu. Í vissum tilvikum er mikilvægt fyrir stjórnendur leitar- og björgunaraðgerða að hafa þetta hugsanlega misræmi í huga.