Eftirlit og aðstoð vaktstöðvar siglinga / stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar VSS

Mánudagur 20. mars 2006.

Í síðustu viku hafði línubátur sem staddur var útaf Ingólfshöfða samband við vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar (VSS) á fjarskiptarás 16.  Skipstjórnarmenn á línubátnum óskuðu eftir upplýsingum um nærstödd skip en þeir sáu skip í grenndinni sem stefndi næstum beint á þá.  Starfsmenn VSS sáu á skjá sjálfvirka auðkenningarkerfisins (AIS) að flutningaskipið Jumbo var á siglingu nálægt línubátnum og stefndi á hann.

 

Varðstjórar í VSS létu skipstjórnarmenn línubátsins strax vita hvaða skip væri að stefna á þá og þeir gátu í framhaldinu kallað skipið upp á rás 16.  Engin svör fengust frá flutningaskipinu en á skjá sjálfvirka staðsetningarkerfisins í VSS mátti greinilega sjá flutningaskipið beygja frá línubátnum.

 

Tilvik af þessu tagi koma reglulega inn á borð starfsmanna VSS. Einnig aðstoða og leiðbeina þeir oft skipum og bátum áleiðis til hafna þegar siglingatæki bila og skipin eiga erfitt með áframhaldandi siglingu af þeim sökum eða vegna lélegs skyggnis, náttmyrkurs eða takmarkaðrar landsýnar.

 

Með auknum alþjóðlegum siglingum innan íslenskrar efnahagslögsögu og jafnvel meðfram ströndum landsins ætti öllum að vera ljós þörfin fyrir aukið eftirlit.  Sjálfvirka auðkenningarkerfið (AIS) sem vaktað er í VSS gegnir nú þegar mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar.   Verið er að hanna gagnagrunn  og upplýsingarkerfi sem sameinar og tekur við upplýsingum frá öllum eftirlitskerfum VSS.   Það er íslenska sjálfvirka tilkynningarskyldan (STK) sem flestir þekkja, sjálfvika auðkenningarkerfið (AIS) og fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.  Þegar þessu lýkur verður hægt að  fylgjast með nær allri skipaumferð við Ísland á sama skjánum í  samræmdu viðmóti.  

 

Upplýsingakerfi vaktstöðvar siglinga munu vafalítið verða sífellt mikilvægari fyrir varnir og öryggi landsins og gera eftirlit loftfara og skipa Landhelgisgæslunnar mun markvissara. Strandlengja Íslands er 4.800 km löng og því ljóst mikilvægi þess að fylgjast náið með allri skipaumferð umhverfis landið.  Erlend skip sem nálgast landið eiga mörg hver að vera útbúin sjálfvirku auðkenningarkerfi (AIS) en þó ekki öll. Í framtíðinni eru allar líkur á því að fleiri og fleiri skip verði skyldug til að hafa slíkan búnað um borð. Þegar varðskip og loftför Landhelgisgæslunnar koma að skipum sem eiga að vera útbúin sjálfvirkum auðkenningarbúnaði (AIS) en senda ekki merki, gefur það strax vísbendingu um að þetta skip þurfi að athuga nánar.

Ásgrímur L. Ásgrímsson
yfirmaður vaktstöðvar siglinga

 
Stöðumynd úr sjálfvirka auðkenningarkerfinu (AIS - Automatic Identification System) í janúar á þessu ári. Grænu þríhyrningarnir sýna skip sem stödd eru víðsvegar umhverfis landið.