Vélsleðaslys á Langjökli - þyrla Varnarliðsins flutti hinn slasaða á sjúkrahús

Laugardagur 4. mars 2006.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga fékk tilkynningu um vélsleðaslys á Langjökli um kl. 12:30.  Þar hafði maður fallið um 40 metra niður af snjóhengju og slasast.

Stjórnstöðin hafði strax samband við Varnarliðið og óskaði eftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Um það bil 17 mínútum síðar óskaði lögreglan eftir því að þyrla yrði send af stað.

Þyrla Varnarliðsins fór í loftið rétt fyrir kl. 14.  Flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, fór í loftið stuttu síðar til að halda uppi fjarskiptum milli þyrlunnar og vettvangs meðan á aðgerðum stæði, þ.e. hún var notuð sem endurvarpi fyrir fjarskipti.

Um kl. 14:30 voru báðar vélarnar komnar á slysstað og voru menn úr björgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á staðnum. 

Þyrla Varnarliðsins lenti með slasað vélsleðamanninn við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 15.  Að sögn varðstjóra í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga skipti sköpum við björgunarstörfin að flugvél Flugmálastjórnar bar boð milli Varnarliðsþyrlunnar og annarra björgunaraðila.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.