Stjórnvana skip í innsiglingu út frá Grindavík

  • _MG_6105b

Sunnudagur 19. febrúar 2012

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk um kl. 17:30 í dag kall í talstöð frá fiskiskipinu Páli-Jónssyni GK-007. Fram kom að skipið væri stjórnvana í innsiglingu út frá Grindavík með fjórtán manns í áhöfn, en gæti stýrt að einhverju leyti með hliðarskrúfum. Varðstjórar í stjórnstöð LHG kölluðu strax út með mesta forgang björgunarskip Slysvarnarfélagsins Landsbjargar, Odd V. Gíslason og björgunarsveitina í Grindavík. Þá var þyrla LHG einnig kölluð út á mesta forgang. Um kl 17:46 hafði skipið samband og lét vita að það væri komið inn fyrir hafnargarða Grindavíkurhafnar og nyti aðstoðar björgunarskipsins Odds V. Gíslasonar. Þegar skipið var komið að bryggju kl 17:52 var hættuástandi aflýst og þyrlan afturkölluð sem og björgunarsveitir.  Varðstjórar í stjórnstöð fylgdust með atburðarrás í gegnum fjarskipti og ferilvöktunarkerfi stöðvarinnar.