Tvö þyrluútköll í dag

  • GNA2

Laugardagur 10. mars 2012

 Þyrla Landhelgisgæslunnar var í tvígang kölluð út í dag. Í fyrra skiptið eftir að boð hófu að berast frá neyðarsendi vestur af Grindavík. TF-GNA fór í loftið kl. 09:56 og var flogið í átt að punkti sem gefinn var upp af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Kl. 10:24 bárust aftur sendingar frá neyðarsendinum og náði þyrluáhöfn að miða hann út um 12-15 sml vestur af Grindavík. Í ljós kom að um var að ræða neyðarsendi sem fyrir skömmu síðan féll útbyrðis af togara. Náðist hann um borð í þyrluna kl. 10:50.

Seinna útkallið var í eftirmiðdaginn kl. 15:51 eftir að beiðni um þyrlu barst frá Neyðarlínunni um sjúkraflug til Vestmannaeyja. Flugvél Mýflugs hafði ítrekað reynt að lenda í Eyjum en tókst ekki vegna þoku. TF-GNA fór í loftið kl. 16:18 og var flogið beint til Vestmannaeyja þar sem lent var kl. 17:15 og var sjúklingur fluttur um borð í þyrluna. Farið var að nýju í loftið kl. 17:32 og lent á Reykjavíkurflugvelli kl. 18:14 þar sem sjúkrabifreið beið og flutti sjúkling á Landspítalann.