Neta- og dragnótabátur vélarvana á Meðallandsbugt

  • GNA2

Föstudagur 18. maí 2012 kl. 23:20

Landhelgisgæslunni barst kl. 21:25 í kvöld aðstoðarbeiðni frá neta- og dragnótabát, með tíu manns í áhöfn sem var vélarvana á Meðallandsbugt norðan við Skarðsfjöruvita og rak í átt að landi. Samstundis voru kallaðar út tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og er önnur þeirra í biðstöðu í Reykjavík. Einnig voru kölluð út björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði auk björgunarsveita á Suðurlandi sem fóru niður í fjöruna og eru þar í viðbragðsstöðu. Einnig voru nærliggjandi skip beðin um að halda á staðinn.

Skipverjar létu akkeri falla kl. 21:52 þegar skipið var um 1 sjómílu undan landi og hefur skipið ekki hreyfst úr stað síðan það var gert. Von er á skipi til aðstoðar um kl. 00:20 en þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn um kl. 23:10 og bíða þeir nú átekta ásamt björgunarsveitum ef á þarf að halda.  Vegna aðgerðarinnar var ákveðið að Samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð yrði áfram starfandi en fulltrúar hennar voru enn á staðnum eftir flugatvikið á Keflavíkurflugvelli.