Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við slökkvistörf

  • 16062012_LHG_slokkvistorf

Laugardagur 16. júní 2012

Landhelgisgæslunni barst kl. 14:25 beiðni í gegnum Neyðarlínuna frá Slökkviliði  höfuðborgarsvæðisins um aðstoð við að slökkva gróðurelda við Ásfjall í Hafnarfirði. Fór TF-LlF í loftið kl. 14:45 og var flogið með slökkviskjólu að Ásfjalli. Í aðgerðinni sótti þyrlan sjö sinnum vatn í Hvaleyrarvatn og sprautaði yfir eldinn en þyrlan sleppir rúmlega eitt þúsund lítrum í hverri ferð.  Tókst aðgerðin mjög vel og gekk  greiðlega að slökkva eldinn á skömmum tíma. Lauk störfum þyrlunnar  kl. 15:30 og var þá haldið til Reykjavíkur.

Þyrla Landhelgisgæslunnar æfir reglulega slökkvistörf úr þyrlu og eru áhafnirnar orðnar mjög vel æfðar. Slökkviskjólan er hengd  neðan í þyrluna, henni dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Fatan er síðan tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og  vatnið gusast út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2100 lítrar en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1500 lítrum upp í fyrrnefnda 2100 lítra.

Ljósmynd/Andrés Birkir Sighvatsson