Sjórinn iðar af hval út af Vopnafirði - vísbending um loðnu

Mánudagur 30. janúar 2006

Sýn, flugvél Landhelgisgæslunnar, fór í eftirlitsflug yfir austur- og norðausturmið í dag.
Er vélin var um 75 sjómílur austur af mynni Vopnafjarðar varð áhöfnin vör við að sjórinn
iðaði af hval á stóru svæði.  Skiptust hvalirnir í tvo stóra hópa.  Í fyrstu, er hvalirnir
birtust á ratsjá í um 5-10 sjómílna fjarlægð, taldi áhöfnin að um skip væri að ræða en svo
kom í ljós að þetta voru hvalir.

Það er vísbending um að loðna sé á svæðinu þegar svo margir hvalir sjást samankomnir.
Þessum upplýsingum var komið til rannsóknarskips Hafrannsóknastofnunar, Árna
Friðrikssonar, sem er við loðnuleit á Austfjarðamiðum.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.