Höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar flytjast í Skógarhlíð 14 í Reykjavík

Föstudagur 20. janúar 2006.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar, sem hafa verið til húsa að Seljavegi 32 í Reykjavík, eru nú að koma sér fyrir í nýju húsnæði höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í Skógarhlíð 14 í Reykjavík.  Það er starfsfólk skrifstofu Landhelgisgæslunnar og sjómælingasviðs.

Flutningarnir klárast að mestu leyti nú um helgina og verður Landhelgisgæslan formlega flutt í Skógarhlíð 14 næstkomandi mánudag, 23. janúar.  Reyndar verður einhver bið enn á að lager og hluti af starfsemi sprengjudeildar fái húsnæði í Skógarhlíðinni.

Í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð eru einnig til húsa Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, fjarskiptamiðstöð og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Neyðarlínan,Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins og fleiri.  Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar flutti á síðasta ári inn í vaktstöð siglinga sem staðsett er í húsinu og sér Landhelgisgæslan um faglega stjórnun stöðvarinnar.

Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður tók meðfylgjandi myndir er björgunarþyrlan Líf flaug yfir Skógarhlíðina í dag.  Skrifstofuhúsnæði Landhelgisgæslunnar var byggt ofan á húsið lengst til hægri við aðalinnganginn og er því um alveg nýtt húsnæði að ræða.

Einnig fylgir mynd af húsnæði Landhelgisgæslunnar að Seljavegi 32 sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók en Landhelgisgæslan hefur verið með höfuðstöðvar sínar þar síðan árið 1952 þegar Landhelgisgæslan var gerð að sjálfstæðri stofnun og Pétur Sigurðsson tók við forstjórastarfinu. 

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Hérna sést nýja húsnæði Landhelgisgæslunnar við hornið á Skógarhlíð og Bústaðavegi.  Mynd ÞII.


Mynd ÞII.


Seljavegur 32. Mynd JPÁ.,


Á þessu korti sýnir örin leiðina frá Seljavegi að Skógarhlíð þar sem höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar eru nú til húsa.