Skipulagsskrá undirrituð fyrir Þyrlukaupasjóð

  • Thyrlusjodur_undirskrift

Mánudagur 24. september 2012

Nýverið var undirrituð skipulagsskrá fyrir Þyrlukaupasjóð en stofnandi sjóðsins er Öldungaráðið (félag fyrrverandi starfsmanna Landhelgisgæslunnar og Sjómælinga Íslands, sextugra og eldri). Stofnfé sjóðsins eru tvær milljónir króna sem Ásatrúarfélagið gaf þann 12. maí sl. í söfnun til kaupa/leigu á þyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands eða búnaðar í björgunarþyrlu.

Markmið sjóðsins er að vera vettvangur allra landsmanna til að efla öryggi lands og þjóðar með því að safna fé til kaupa/leigu á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna eða til kaupa á nauðsynlegum búnaði um borð í björgunarþyrluna eða búnaði fyrir áhafnir.  Þetta er gert til að stuðla að því að Landhelgisgæslan eigi sem bestan búnað til þess að bjarga sjófarendum og loftförum á björgunarsvæði Íslands auk leitar og björgunar á landi. 

Stjórn sjóðsins er skipuð þremur mönnum en það eru formaður Öldungaráðsins á hverjum tíma, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar og flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar svo lengi sem þeir gegna því starfi. 

Á myndinni er stjórn sjóðsins við undirritunina þeir: Sólmundur Már Jónsson , frkv.stj. rekstrarsviðs, Guðjón Petersen, formaður Öldungaráðsins, og Sindri Steingrímsson, flugrekstrarstjóri ásamt Dagmar Sigurðardóttur lögfræðingi Landhelgisgæslunnar.