Landhelgisgæslan og 112 dagurinn

Fimmtudagur 5. janúar 2006

 

Landhelgisgæslan tekur þátt í 112 deginum sem haldinn verður 11. febrúar næstkomandi en tvö varðskip verða til sýnis, í Reykjavík og úti á landi, og björgunarþyrlan Sif tekur þátt í sýningu í Skógarhlíð. Einnig verða myndir úr starfi LHG sýndar á ljósmyndasýningu í tilefni dagsins.

 

Hér fyrir neðan er fréttatilkynning frá verkefnisstjóra 112 dagsins en skipuleggjandi af hálfu Landhelgisgæslunnar er Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður í flugdeild.

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingafulltrúi

 
 

112 dagurinn 2006 – samvinna og samhæfing viðbragðsaðila

 

112 dagurinn var haldinn á Íslandi í fyrsta sinn 11. febrúar 2005 og ákveðið hefur verið að halda hann að nýju 11. febrúar næstkomandi. Að þessu sinni verður áhersla lögð á að viðbragðsaðilar um land allt standi sameiginlega að því að kynna starfsemi sína en dagskráin tekur einnig mið af því að Neyðarlínan fagnar tíu ára starfsafmæli um þessar mundir.

 

Markmiðið með 112 deginum er að kynna neyðarnúmerið og starfsemi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar.

 

Efnt verður til viðburða um allt land dagana 10. og 11. febrúar. Fyrri daginn verður haldin ráðstefna um björgun og almannavarnir í tilefni af tíu ára afmæli Neyðarlínunnar og verður hún auglýst nánar síðar. Einnig verður ljósmyndasýningin Útkall 2005 opnuð í Reykjavík og á Akureyri. Loks er gert ráð fyrir að Rauði kross Íslands tilkynni um val á skyndihjálparmanni ársins og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna afhendi verðlaun í Eldvarnagetrauninni þennan dag.

 

Laugardaginn 11. febrúar, á 112 daginn, er hins vegar stefnt að því að viðbragðsaðilar um allt land standi sameiginlega að því að kynna starfsemi sína fyrir almenningi. Þegar hefur verið ákveðið að viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu myndi lest bíla og tækja og fari um svæðið til að sýna sameiginlegan styrk sinn og samstöðu og til að vekja athygli á opnu húsi sem verður í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð kl. 13-16.

 

Garðar H. Guðjónsson kynningarráðgjafi mun annast stjórn verkefnisins eins og í fyrra og er unnt að leita nánari upplýsinga um 112 daginn með því að senda tölvupóst á gaji@mmedia.is.

 

Björgunaþyrla Landhelgisgæslunnar lent á planinu við Smáralind í Kópavogi eftir að hafa sýnt björgunaræfingar í tilefni 112 dagsins.