Starfsmaður Landhelgisgæslunnar heldur til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar á Sri Lanka

Þriðjudagur 3. janúar 2006

Starfsmaður Landhelgisgæslunnar, Marvin Ingólfsson, mun á næstu dögum halda til Sri Lanka þar sem hann mun starfa fyrir Íslensku friðargæsluna við vopnahléseftirlit á vegum Sri Lanka Monitoring Mission - SLMM.  Marvin hefur skipstjórnarmenntun og mun starfa við vopnahléseftirlit á sjó (á ensku Naval Monitor). Marvin hefur einnig hlotið þjálfun hjá sprengjusveit Landhelgisgæslunnar.  Gert er ráð fyrir að Marvin muni dvelja u.þ.b. hálft ár á Sri Lanka.

SLMM var komið á fót samhliða vopnahléssamningum sem stjórnarherinn á Sri Lanka og uppreisnarmenn Tamíla (Tígrarnir) gerðu með sér þann 22. febrúar 2002. Verkefnið er samnorrænt en undir norskri stjórn og snýst um eftirlit með því hverning stríðandi fylkingar á Sri Lanka halda vopnahléð. Báðir deiluaðilar hafa talið gagn af starfsemi SLMM og má nokkuð víst telja að ástandið í landinu væri mun verra ef starfseminni hefði ekki verið komið á fót á sínum tíma. Spennustig í landinu hefur að vísu hækkað nokkuð eftir nýafstaðnar forsetakosningar en starfsmenn SLMM telja sig ekki vera í hættu.

Um það bil 60 starfsmenn frá öllum Norðurlöndunum vinna að þessu verkefni en þar af eru 5 Íslendingar og er það nokkuð hátt hlutfall miðað við fólksfjölda.  Nánari upplýsingar um starfsemi SLMM má fá á slóðinni:  http://www.slmm.lk/

Sjá meðfylgandi mynd sem tekin var af Marvin sl. sumar er hann var að störfum hjá sprengjusveit Landhelgisgæslunnar.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.