Útkall vegna slasaðs manns um borð í netabát

Laugardagur 17. desember 2005.

Áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út í morgun vegna aðstoðarbeiðni frá netabátnum Tjaldi SH-270 sem staddur var 60 sjómílur ( 111 km.) norður af Horni.  Skipverji hafði fallið um koll í lestinni og fengið höfuðhögg og aðra áverka.  Óttast var að hann væri alvarlega slasaður.

Líf fór í loftið kl. 9:49.  Veður var fyrst þokkalegt en svo hvessti og fór vindhraði allt upp í 30 metra á sekúndu á leiðinni.  Vegna aðstæðna varð að fljúga fyrir Snæfellsnes og Bjargtanga og lenti þyrlan á Ísafirði kl. 10:30 til að taka eldsneyti.  Er þangað var komið fengust nýjar upplýsingar um ástand mannsins sem þá var orðinn hressari.  Með hliðsjón af því og vegna aðstæðna og veðurs var ákveðið að hætta við að sækja manninn.  Líf kom til baka til Reykjavíkur kl. 14:13.

Vegna þoku og stöku ísjaka í sjónum var ekki hægt að sigla Tjaldi með fullri ferð til lands. Búist er við að báturinn komi til Bolungarvíkur um kvöldmatarleytið.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingafulltrúi