Þyrluflugmaður frá Landhelgisgæslunni fer til starfa á hamfarasvæðunum í Pakistan yfir jólin

Miðvikudagur 14. desember 2005.

Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár haft talsvert samstarf við norska fyrirtækið Air Lift en það er með svipaðan þyrlurekstur og Landhelgisgæslan á Svalbarða samkvæmt samningi við sýslumanninn þar.  Þar sem Landhelgisgæslan og Air Lift eru með sams konar þyrlur, eru bæði möguleikar á samnýtingu varahlutalagers og einnig hefur það tíðkast að flugmenn Landhelgisgæslunnar starfi fyrir Air Lift í fríum og fái þannig ómetanlega reynslu.

Nú í desember fer einn af þyrluflugmönnum Landhelgisgæslunnar, Þórarinn Ingi Ingason, til starfa fyrir Air Lift á hamfarasvæðunum í Pakistan en þar bíður hans það hlutverk að fljúga með vistir og nauðsynjar upp í þorpin í fjöllunum í kringum bæinn Abbottabad sem sjá má á meðfylgjandi korti. Einnig að fljúga með slasað fólk á sjúkrahús úr fjallaþorpunum. 

Þórarinn Ingi mun fljúga þyrlu af gerðinni Super Puma en Líf, stærri þyrla Landhelgisgæslunnar, er af þeirri gerð.  Air Lift vinnur fyrir Alþjóða Rauða krossinn sem starfar í Pakistan en nú er einmitt mikið kapphlaup við tímann að koma fólki í öruggt skjól áður en veturinn skellur á af öllum sínum þunga. 

Þórarinn Ingi fer utan 16. desember næstkomandi og kemur til baka 30. desember.  Hann mun því eyða jólunum í Pakistan.

Sjá nýjustu frásagnir frá Rauðakrossliðum á svæðinu á slóðinni:
http://www.icrc.org/web/eng/siteeng0.nsf/iwpList603/C456354229F0642FC12570CF0044DBA5

Einnig má sjá kort af svæðinu á slóðinni:
http://www.icrc.org/web/eng/siteeng0.nsf/htmlall/map-south-asia-earthquake-101005


Þórarinn Ingi inni í Super Pumu Air Lift á Svalbarða í júní síðastliðnum.


Þórarinn Ingi ásamt félögum sínum í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að fara í æfingaflug á Super Pumu Air Lift á Svalbarða í júní sl.  Á myndinni eru frá vinstri:  Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild LHG, Jón Tómas Vilhjálmsson flugvirki LHG, Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður LHG, starfsmaður Airlift (í rauða og svarta gallanum) og Friðrik Höskuldsson stýrimaður í flugdeild LHG.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingafulltrúi