Staðan innan hafsvæðisins - samæfing LHG haldin á föstudag

  • THOR_flug_EmilValgeirs

Mánudagur 25. febrúar 2013

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eru að jafnaði um 200-250 skip á sjó þessa dagana innan lögsögu Íslands. Flotinn er nokkuð dreifður en þó er nokkur umferð togara á Vestfjarðamiðum og vestur af Kolbeinsey. Loðnuflotinn er við Vestmannaeyjar. Þrjú færeysk loðnuskip eru að veiðum innan lögsögunnar ásamt einu grænlensku loðnuskipi. Einnig er einn norskur línubátur að veiðum í Skerjadýpi. Sex skyndilokanir eru í gildi innan hafsvæðisins, fjórar fyrir Vesturlandi og tvær fyrir austan land.

Næstkomandi föstudag, 1. mars verður haldin samæfing stjórnstöðvar, varðskips og loftfara Landhelgisgæslunnar en í æfingunni taka þátt varðskipið Þór, flugvélin SIF og þyrlurnar LIF og GNA ásamt stjórnstöð. Markmið æfingarinnar er að æfa framkvæmd leitar og björgunar á sjó í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um leit og björgun -  IAMSAR, þ.e. samskipti björgunareininga og  björgunaraðferðir.