Gagnrýni á Landhelgisgæsluna svarað

Vegna forsíðufréttar í Fréttablaðinu 6. desember 2005.

 

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram í fyrirsögn að Landhelgisgæslan sé að þrotum komin.  Jafnframt kemur fram í fyrirsögn að Einar Oddur, varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýnir fjármálastjóra Landhelgisgæslunnar.

 

Í fréttinni er haft eftir Einari Oddi að „... Landhelgisgæslan eins og aðrar fjárfrekar stofnanir, gerir náttúrulega kröfur um peninga.  Þeir réðu þarna nýjan fjármálastjóra og þá lagðist einhvern veginn niður innheimtan.“  Landhelgisgæslan telur að þessar fullyrðingar hljóti að byggjast á misskilningi.  Þess ber að geta að starf fjármálastjóra hjá Landhelgisgæslunni var lagt niður með skipulagsbreytingu í sumar og var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs ráðinn frá og með 1. september sl.

 

Meint gagnrýni virðist beinast að því að þegar nýr fjármálastjóri/framkvæmdastjóri rekstrarsviðs tók til starfa hafi innheimta lagst niður, annars vegar innheimta úr Landhelgissjóði og hins vegar innheimta björgunarlauna.  Landhelgisgæslan ræður ekki yfir Landhelgissjóði heldur dómsmálaráðherra og getur ekki fengið fé úr Landhelgissjóði nema með samþykki dómsmálaráðherra. 

 

Varðandi innheimtu björgunarlauna þá koma þau rekstri Landhelgisgæslunnar ekki við þar sem björgunarlaun fara annars vegar til áhafnar og hins vegar í Landhelgissjóð. Lögfræðingur Landhelgisgæslunnar sér um innheimtu björgunarlauna og er eitt slíkt mál útistandandi og í eðlilegum farvegi.  Störf fjármálastjóra/framkvæmdastjóra rekstrarsviðs koma þar af leiðandi þessu máli ekkert við.

Í fréttinni er Landhelgisgæslunni líkt við gjaldþrota fyrirtæki.  Staðreyndin er sú að Landhelgisgæslan hefur fengið 40 milljónir í aukafjárveitingar samkvæmt fjáraukalögum og er unnið að endurbótum á rekstri fyrirtækisins í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið. 

 

Dagmar Sigurðardóttir

lögfræðingur/upplýsingafulltrúi.