Samæfing íslenskra viðbragðsaðila með björgunarsveit breska flughersins

  • GNA2

Föstudagur 26. apríl 2013

Samæfing íslenskra viðbragðsaðila með björgunarsveit breska flughersins fer fram á Langjökli og í Borgarfirði um helgina. Meginmarkmið æfingarinnar er að þjálfa bresku sveitina í fjallabjörgun og undirbúa íslenska viðbragðsaðila, Almannavarnardeild - og Sérsveit Ríkislögreglustjóra, lögregluna í Borgarnesi,  Landhelgisgæslu Íslands  og Slysavarnarfélagið Landsbjörgu fyrir flugslys hervéla á Íslandi. Áhersla verður lögð á fjalla og jöklabjörgun og mun því æfingin að mestu fara fram á Langjökli og við Húsafell. Æfinga- og vettvangsstjórn verður skipuð fulltrúum íslensku viðbragðsaðilanna og einnig verður Samhæfingarstöð í Skógarhlíð virkjuð hluta af tímanum.

Handrit æfingarinnar fjallar um aðstæður sem koma upp þegar flugstjórn tilkynnir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/JRCC Ísland um að C-130 Hercules flugvél frá breska hernum sé saknað. Bregst stjórnstöðin þá við í samræmi við verkferla, virkjar / upplýsir viðbragðsaðila og reiknar út hugsanlegt leitarsvæði sem er Langjökull og Borgarfjörður.

Viðbragðsaðilar mæta á leitarsvæðið ásamt fulltrúum breskra yfirvalda og verður aðgerðum stýrt frá svæðisstjórnarbíl björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu. Einnig munu sprengjusérfræðingar LHG verða með sinn búnað, þyrla Landhelgisgæslunnar leitar á svæðinu og miðlar upplýsingum til aðgerðastjórnar. Þyrlan mun einnig sinna öðrum aðkallandi verkefnum ef þörf krefur, s.s. flytja mannskap og búnað um svæðið.