NATO styrkir Northern Challenge æfingu Landhelgisgæslunnar gegn hryðjuverkum

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Adrian John King fagstjóri sprengjusveitar, heimsóttu höfuðstöðvar NATO í Brussel í síðustu viku. Á fundi þeirra með Marshall S. Billingslea, verkefnisstjóra NATO í vörnum gegn hryðjuverkum, kom fram að NATO myndi styrkja sprengjusveitaræfingu Landhelgisgæslunnar, Northern Challenge, á árinu 2006. Sprengjusérfræðingar frá NATO og öðrum ríkjum taka þátt í æfingunni, en á síðustu fjórum árum hefur hún orðið mikilvægur liður í þjálfun hjá NATO og PfP (Partners for Peace).

 

Æfinguna í ár sóttu sveitir frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi. Yfirmenn og sérfræðingar í vörnum gegn hryðjuverkum frá NATO fylgdust einnig með æfingunni. Styrkurinn til Landhelgisgæslunnar er hluti af víðtækum aðgerðum NATO til að styrkja tæknilega vinnu sem sérstaklega miðar að því að vinna gegn hryðjuverkum. Í henni felst m.a. að tryggja öryggi hafna og siglinga, vopna- og skotfæraeyðingu og verndun farþegaflugfélaga gegn t.d. flugskeytum sem skotið er af öxlinni (Man Portable Ground Launced Missiles). Landhelgisgæslan mun fá upplýsingar og framvinduskýrslur frá öllum þátttakendum í verkefninu og vonast er til að bæði þetta og samvinnan við aðrar þjóðir muni bæði gagnast Landhelgisgæslunni og öðrum öryggisstofnunum á Íslandi.

 

Þátttaka í vinnu sem þessari er mjög mikil áskorun fyrir Landhelgisgæsluna, þar sem hryðjuverkamenn hafa náð mikilli færni í sprengjugerð og mörg saklaus fórnarlömb verða fyrir þeim dag hvern. Styrkurinn mun verða notaður til að tryggja að æfingin verði í hæsta mögulega gæðaflokki til að veita sem besta þjálfun fyrir þá sem starfa við þau erfiðu og hættulegu verkefni að vinna með sprengjur hryðjuverkamanna.

 

Sprengjusérfræðingur LHG að störfum í Írak

Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar að störfum í Írak