Annríki hjá stjórnstöð og flugdeild um helgina

Mánudagur 27. maí 2013

Talsvert annríki var um helgina hjá stjórnstöð og flugdeild Landhelgisgæslunnar vegna aðstoðarbeiðna. Á föstudag var þyrla kölluð út vegna leitar að erlendum göngumanni á Fimmvörðuhálsi. TF-LIF var kölluð út til leitar en erfitt skyggni var á svæðinu. Fundu björgunarsveitir manninn í Hvannárgili og komu honum til aðstoðar. Skömmu síðar barst beiðni um aðstoð þyrlu vegna köfunarslyss í Silfru á Þingvöllum.  Barst síðan afturköllun þar sem ekki var talin þörf á þyrlunni.

Á laugardag var þyrla kölluð út tvisvar sinnum í sjúkraflug eftir að slys urðu í mótorkrosskeppni á Kirkjubæjarklaustri. Fyrra útkallið barst kl. 13:25 og fór þyrlan í loftið kl. 13:46. Sjúkrabifreið ók til móts við þyrluna og var lent kl. 14:18 við Heimaland undir Eyjafjöllum. Sjúklingur var fluttur um borð í þyrluna og var lent við Landspítalann í Fossvogi kl. 15:01. Seinna útkallið barst kl. 19:28 og fór þyrlan í loftið kl. 20:00 og flaug til móts við sjúkrabíl. Lent var við Skóga undir Eyjafjöllum kl. 20:35. Sjúklingur var fluttur um borð í þyrluna og farið að nýju í loftið kl.  20:44.  TF-LIF lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 21:23.