Ákvörðun tekin um loftrýmiseftirlit Svía og Finna á Íslandi

  • KEFIMG_0497

Föstudagur 5. júlí 2013

Í byrjun næsta árs munu Svíar og Finnar sinna loftrýmiseftirliti á Íslandi samhliða reglubundinni loftrýmisgæslu Norðmanna. Um er að ræða merkileg skref í sögu norrænnar varnarsamvinnu og Atlantshafsbandalagsins segir í frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Tekin hefur verið ákvörðun um að loftrýmiseftirlitið mun eiga sér stað dagana 3.-21. febrúar 2014 og hafa þjóðþing Finna og Svía samþykkt þátttökuna, sem og fastaráð Atlantshafsbandalagsins.  Þátttaka Svía og Finna í loftrýmiseftirliti á Íslandi á sér bakgrunn í skýrslu Thorvalds Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Noregs, um norrænt samstarf í utanríkis- og varnarmálum sem hann afhenti utanríkisráðherrum Norðurlandanna árið 2009.

Tvær undirbúningsráðstefnur hafa átt sér stað á þessu ári og mun lokaundirbúningur fara fram á Íslandi í lok október nk. Öll ríkin þrjú munu leggja til orrustuþotur en einnig er fyrirséð að ratsjárvélar frá Atlantshafsbandalaginu og þyrlur og eldsneytisáfyllingarvél frá Finnlandi og Svíþjóð verði liður í eftirlitinu. Alls munu þátttakendur frá löndunum þremur verða á bilinu 200-250 manns.

Framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu fer fram í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (Control and Reporting Centre). Verkefnið er hluti af samþættu verkefni NATO, „NATO intergrated air defence system - "NATINADS“ og er það unnið af starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands. Auk þess hefur Landhelgisgæslan umsjón með aðstöðu fyrir mannafla og búnað þjóðanna sem koma til að sinna verkefninu og veitir aðstoð vegna leitar og björgunar.

Sjá frétt á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins.