Björgunarþyrlan Líf sótti veikan sjómann um borð í togarann Guðmund í Nesi

Í morgun hafði áhöfnin á togaranum Guðmundi í Nesi samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/vaktstöð siglinga og óskaði eftir þyrlu til að sækja sjómann sem talinn var alvarlega veikur.  Eftir að læknir í áhöfn Lífar, þyrlu Landhelgisgæslunnar, hafði kynnt sér ástand mannsins og veitt leiðbeiningar um aðhlynningu hans var talið nauðsynlegt að flytja hann á sjúkrahús sem fyrst. Skipið var þá statt 85 sjómílur út af Patreksfirði.

Áhöfn Lífar var kölluð út kl. 8:48 og var óskað eftir því við skipstjóra Guðmundar í Nesi að hann sigldi skipinu í átt að Rifi á Snæfellsnesi.  Líf fór í loftið kl. 9:41 og var komin að skipinu um ellefuleytið. Vel gekk að flytja sjúklinginn um borð í þyrluna og hélt hún til Reykjavíkur kl. 11:10.  

Líf lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 12:20 og var sjómaðurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.