Komin út lokaskýrsla vegna æfingarinnar SAREX Greenland 2013

Staðsetning Íslands skiptir sköpum við björgunaraðgerðir sem þessar

Miðvikudagur 27. nóvember 2013

Nýverið voru gefnar út lokaniðurstöður vegna leitar- og björgunaræfingarinnar SAREX Greenland Sea 2013, sem fór fram í september, norðaustarlega á Grænlandshafi. Var þetta í annað sinn sem æfingin er haldin á grunni samkomulags Norðurskautsríkjanna um öryggi á Norðurslóðum.  Æfingin í ár tók mið af því sem betur mátti fara á síðasta ári og var leitast við að bæta það.  Þær þjóðir Norður Heimskautsráðsins sem sendu leitar- og björgunaraðila á svæðið auk Íslands voru Grænland, Danmörk, Kanada, Noregur og Bandaríkin. Tilgangur SAREX Greenland Sea er að þjálfa viðbragðsaðila þjóðanna í að bregðast við áföllum sem verða á afskekktum svæðum Norðurheimskautsins. Í æfingunni voru þjálfuð viðbrögð við því þegar skemmtiferðaskip lendir í áföllum á afskekktri austurströnd Grænlands, fjarri öllum björgunareiningum. Staðsetningin var innan leitar- og björgunarsvæðis Íslands sem er um 1,8 milljón ferkílómetrar að stærð. Um er að ræða gífurlega stórt ábyrgðarsvæði á erfiðu hafsvæði.

Landhelgisgæslan tók þátt í æfingunni með ýmsum hætti. Skemmtiferðaskip hætti að senda frá sér staðsetningar innan leitar- og björgunarsvæðis Íslands og hafði þá björgunarmiðstöðin í Nuuk samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð. Varðskipið Týr fór samstundis til aðstoðar auk þess sem flugvélin TF-SIF tók þátt í leitinni og flaug með fallhlífastökkvara frá Flugbjörgunarsveitinni á staðinn.  

Í lokaskýrslu æfingarinnar kemur meðal annars fram að æfingin tókst á heildina litið vel og nýtist hún afar vel við gerð viðbragðsáætlunar fyrir svæðið. Staðsetning Íslands skiptir sköpum þegar kemur að björgunaraðgerðum við austurströnd Grænlands og veitti Landhelgisgæslan í Keflavík ýmsa þjónustu og gistiríkjastuðning meðan á aðgerðum stóð. Ekki er um að ræða þéttbýlissvæði á norðausturströnd Grænlands sem getur veitt þjónustu við björgunaraðgerðir sem þessar. Flokkun og mat á flutningi sjúklinga frá slysstað með flugi og á sjó gekk vel en um er að ræða afskekkt svæði fjarri flugvelli. Þörf er á fleiri þyrlum við flutninga sem og flugvélum sem geta lent á stuttum flugbrautum. Móta þarf frekar verklag við miðlun upplýsinga varðandi flutning slasaðra frá björgunarvettvangi til Keflavíkur eða annarra móttökustaða.

Einnig kom fram að mikil þörf er á flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF til taks hér á landi enda er hún öflug leitar- björgunar- og eftirlitsflugvél sem nýtist afar vel við eftirlit á stóru hafsvæði. Flugvélin gegnir mikilvægu leitar- og björgunarhlutverki, getur flutt sjúklinga, björgunarlið og búnað á og frá vettvangi. Einnig getur hún varpað út björgunarbátum, merkjablysum og haldið uppi fjarskiptum o.fl. Hún er búin öflugri ratsjá og hitamyndavél sem gerir hana afkastamikla m.t.t. leitar-, björgunar-, eftirlits og löggæslu. Flugvélin er einnig útbúin sérstökum tækjabúnaði til eftirlits með hafís og hugsanlegri mengun.

Rúmlega 100 fulltrúar Íslands tóku með einum eða öðrum hætti þátt í æfingunni en auk Landhelgisgæslunnar voru þátttakendur frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins , lögreglu, Umhverfisstofnun, Landspítalinn og Isavia. Einnig komu innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið að skipulagsferlinu.

Á heimasíðu danska flotans er hægt að nálgast lokaskýrsluna og skýrslu yfir þann lærdóm sem draga má af æfingunni.

http://www2.forsvaret.dk/VIDEN-OM/ORGANISATION/ARKTISK/SAREX/Pages/SAREX.aspx

Hér eru fréttir á heimasíðu LHG frá æfingunni.

http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/nr/2613
http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/nr/2614
http://www.lhg.is/frettirogutgafa/frettir/nr/2615


Varðskipið Týr siglir með skipum danska flotans


Björgunaraðilar bera saman bækur sínar


Varðskipið Týr á vettvangi


Fallhlífastökkvarar flugbjörgunarsveitarinnar stökkva úr TF-SIF



Áhöfn varðskipsins Týs og fulltrúar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins

Flutningur slasaðra


Sjúkratjald á Ellu eyju, Týr í baksýn


Sleðahundasveitin Sirius er staðsett á svæðinu