Varðskipið Ægir á leið til Reykjavíkur með síldveiðiskipið Hákon í togi

Þriðjudagur 25. október 2005.

Skipstjórinn á síldveiðiskipinu Hákoni EA-148 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga í morgun og óskaði eftir aðstoð þar sem skipið hafði fengið nótina í skrúfuna.  Skipið hafði verið að síldveiðum í Jökuldýpi sem er suðvestur af Snæfellsjökli.

Varðskipið Ægir hélt þegar af stað í átt til skipsins og kom að því um kl. 8 í morgun.  Köfurum varðskipsins tókst ekki, vegna kviku, að ná veiðarfærunum úr skrúfu skipsins og var því Hákon tekinn í tog.  Skipin eru nú á siglingu í átt til Reykjavíkur.

Hákon EA-148 er gerður út frá Grenivík og er 1553.6 brúttórúmlestir og 76 metrar að lengd.

Eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, Syn, flaug yfir skipin í morgun, rétt í þann mund er Ægir tók Hákon í tog, og þá tók Tómas Helgason flugstjóri meðfylgjandi myndir. 

Einnig fylgir mynd Bjarna Hákonarsonar sem hann tók af varðskipinu Ægi er það hélt frá Reykjavík í gær. Myndina kallar hann Mission to the Moon og sendi hann Landhelgisgæslunni myndina með kveðju til áhafnar Ægis. Afabróðir Bjarna var Eiríkur Kristófersson skipherra hjá Landhelgisgæslunni svo hann á ekki langt að sækja áhuga á varðskipum.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Varðskipið Ægir með síldveiðiskipið Hákon EA-148 í togi. Mynd: Tómas Helgason.


Varðskipið Ægir á leið frá Reykjavík í gærkvöldi. Mynd: Bjarni Hákonarson.