Flugsveit Norðmanna lenti á Keflavíkurflugvelli

Mánudagur 27. janúar 2013

Flugsveit Norðmanna sem mun annast loftrýmisgæslu næstu vikur lenti í dag á Keflavíkurflugvelli. Flugsveitin samanstendur af sex F16 þotum og fylgja henni um 110 liðsmenn. Verkefnið er unnið skv. loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Flugsveitir frá Finnlandi og Svíþjóð eru væntanlegar til landsins síðar í vikunni og verða hér á landi til 21. febrúar og æfa Norðurlandasamstarfið samhliða loftrýmisgæslunni með Norðmönnum og Íslendingum. Það verkefni hefur vinnuheitið: „Iceland Air Meet 2014 (IAM2014)“.   Gert er ráð fyrir að samtals verði um að ræða 300 liðsmenn frá þjóðunum og um 20 flugvélar.  Finnar munu einnig leggja til tvær björgunarþyrlur.  Til viðbótar framangreindu taka þátt í verkefninu eldsneytisbirgðaflugvélar frá Bandaríska og Hollenska flughernum ásamt ratsjárflugvél Atlantshafsbandalagsins.  

Hlutverk Landhelgisgæslunnar er að annast rekstur varnar- öryggis- og upplýsingakerfa NATO hér á landi, rekstur öryggissvæða- og  mannvirkja og vera í samskiptum við stofnanir Atlantshafsbandalagsins, aðildarþjóðirnar og Norðurlandaþjóðirnar og hinsvegar samskipti við þá aðila hér á landi sem að verkefninu koma. Í því felst m.a. framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu í stjórnstöð NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (Control and Reporting Centre). Verkefnið er hluti af samþættu verkefni NATO, „NATO intergrated air defence system - "NATINADS“. Fulltrúar þjóðanna sem eru við loftrýmisgæslu eru í stjórnstöðinni ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan annast líka það sem snýr að gistiríkjastuðningi, það felst m.a. í að veita nauðsynlega borgaralega aðstoð,  þjónustu og aðstöðu fyrir mannafla og búnað.

Nánar:

•    Noregur verður með 6 F16 orrustuþotur og um 110 liðsmenn.  
•    Finnland verður með 5 F18 orrustuþotur, 2 NH-90 SAR þyrlur og 60 liðsmenn.
•    Svíþjóð verður með 7 JAS-39 orrustuþotur, C-130 eldsneytisflugvél og 110 liðsmenn.
•    Holland verður með 1 KC10 eldsneytisbirgðaflugvél.
•    Bandaríkin verður með 1 KC135 eldsneytisbirgðaflugvél.
•    NATO verður með 1 ratsjárflugvél sem verður staðsett í Orland, Noregi.

Framkvæmd og undurbúningur verður með saman fyrirkomulagi og áður.  

Sjá frétt á heimasíðu Atlantshafsbandalagsins.