Varðskipið Týr til Sýslumannsins á Svalbarða

  • TYR_Eyjafirdi2009

Landhelgisgæslan og Fáfnir Offshore hf undirrituðu í dag fimm mánaða samning um leigu á varðskipinu Tý, frá byrjun maí nk. Skipið verður leigt til eftirlits- og björgunarstarfa sem og almennra löggæslu- og þjónustustarfa fyrir Sýslumanninn á Svalbarða með heimahöfn í Longerbyen.  Sýslumaðurinn á Svalbarða fer með yfirstjórn allrar stjórnsýslu sem lýtur að aðkomu norska ríkisins á Svalbarða, þar með talið löggæslumál til sjós og lands, leit og björgun og umhverfismál.

Landhelgisgæslan hefur leitast við að koma eldri varðskipum í tímabundin verkefni þar sem ekki er fyrir hendi fjármagn til að halda úti rekstri þeirra hér við land eins og á stendur nú.  Mun þessi samningur styrkja rekstur Landhelgisgæslunnar, ekki hvað síst útgerð varðskipsins Þórs og þar með efla möguleika varðandi leit og björgun hér á heimaslóðum.  Landhelgisgæslan hefur beint og óbeint sinnt verkefnum fyrir Sýslumanninn á Svalbarða gegnum árin en mikið samstarf hefur verið milli þyrlusveitar Sýslumannsins og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.  Landhelgisgæslan telur afar mikilvægt að efla samstarf leitar- og björgunaraðila á Norður-Atlantshafi og því skapar þessi samningur enn frekari möguleika á að efla samstarf milli Svalbarða og Íslands um öryggismál á Norðurslóðum.

Eins og áður segir er um tímabundna leigu að ræða þar til nýtt skip Fáfnis sem nú er í smíðum í  Noregi verður fullbúið, en það skip er fyrsta sérhæfða skip Íslendinga til að þjónusta olíuborpalla og er sérstaklega hannað til að sinna verkefnum á norðlægum slóðum.  Fyrirtækið Fáfnir Offshore hefur haslað sér völl á sviði þjónustu við olíurannsóknir og olíuvinnslu á Norðurslóðum og hyggst enn frekar færa út kvíarnar á þeim vettvangi.  Fyrirtækið hefur gert samning við Sýslumanninn á Svalbarða um gæsluverkefni í kringum eyjarnar næstu tíu árin og mun nýta hið nýja skip til þeirra verka.


Á meðfylgjandi myndum má sjá þegar Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Steingrímur Erlingsson, forstjóri Fáfnis Offshore undirrituðu samninginn.  Þá má einnig sjá myndir af gamla sýslumannsskipinu sem nýja skip Fáfnis leysir af hólmi, mynd af varðskipinu Tý sem og mynd af hinu glæsilega skipi Fáfnis sem tilbúið verður í sumar.

TYR_Eyjafirdi2009


Steingrímur Erlingsson, forstjóri Fáfnis Offshore, Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri og Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar við undirskrift samningsins.