Viðamikil samæfing Landhelgisgæslunnar, Vaktstöðvar siglinga og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins - viðbrögð við bruna um borð í skipi

Miðvikudagur 19. október 2005.

Í gær héldu Landhelgisgæslan, Vaktstöð siglinga og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sameiginlega æfingu í viðbrögðum við bruna í skipi. 

Æfingin hófst með því að varðskipið Ægir hafði samband við Vaktstöð siglinga og tilkynnti að kviknað hefði í skipinu.  Vaktstöð siglinga kallaði þá út Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins í gegnum Neyðarlínuna. Einnig voru áhafnir varðskipsins Týs og þyrlunnar Lífar kallaðar út.

Þyrlan flutti svo slökkviliðsmenn með reykköfunartæki um borð í varðskipið Tý.  Þaðan fóru slökkviliðsmenn ásamt varðskipsmönnum á léttbát um borð í varðskipið Ægi.  Léttbáturinn var við síðuna á Ægi með dælur sem notaðar voru við slökkvistörfin. 

Um borð í Ægi beið slökkvliðismanna og reykköfunarmanna varðskipsins það verkefni að bjarga fimm mönnum sem ekki höfðu komist út úr skipinu, slökkva eldinn og reykræsta skipið.

Alls unnu 15 slökkviliðsmenn og varðskipsmenn við reykköfun en 5 aðrir slökkviliðsmenn voru um borð í Ægi við stjórnun aðgerða og aðhlynningu slasaðra. 

Eftir að mönnunum fimm sem saknað var hafði verið náð út úr skipinu, kom í ljós að 3 þeirra voru á lífi en tveir látnir.  Þyrlan flutti þá sem voru lifandi í land. 

Meðfylgjandi myndir tóku yfirstýrimennirnir Thorben J. Lund og Jón Páll Ásgeirsson.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.


Líf og Ægir. Ef vel er að gáð má sjá reykinn leggja frá skipinu. Ýmislegt var gert til að láta æfinguna vera sem raunverulegasta. Mynd TJL.


Líf að slaka slökkviliðsmönnum niður í varðskipið Tý. Mynd JPA.


Hlúð að þeim sem komust líf af.  Magnús Örn Einarsson yfirstýrimaður í flugdeild, Hlynur Þorsteinsson læknir í áhöfn þyrlunnar Lífar ásamt sjúkraflutningamönnum frá SHS. Mynd JPA.


Týr og léttbátar. Mynd JPA.


Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn frá SHS.  Samvinna varðskipsmanna og slökkviliðsmanna tókst með ágætum. Mynd JPA.


Halldór Nellett skipherra í brúnni á varðskipinu Ægi að fylgjast með varðskipinu Tý. Mynd JPA.


Léttbátur Týs á fleygiferð í átt að varðskipinu Ægi og vatnsdælan í fullum gangi. Mynd TJL.


Varðskipsmenn og slökkviliðsmenn bera saman bækur sínar um borð í Ægi. Mynd JPA.


Ægir og Líf. Mynd TJL.


Vaskir slökkviliðsmenn frá SHS: Aftari röð frá vinstri: Höskuldur Einarson, Jörgen Valdimarsson, Guðjón S. Magnússon, Björgvin S. Jónsson, Hörður Halldórsson, Ragnar Guðmundsson, Gestur Pétursson og Björn Á. Björnsson. Fremri röð frá vinstri: Katla Hjartardóttir (nemi frá Svíþjóð), Eggert Guðmundsson, Pétur Arnþórsson, Kristján Þ. Henrysson og Sigurjón Hendriksson. Mynd: JPA.