Þyrla danska varðskipsins í viðbragðsstöðu fyrir Landhelgisgæsluna

- Undirstikar mikilvægt samstarf þjóðanna

  • Thor_Lynx_eldsneyti

Miðvikudagur 19. mars 2014

Lynx þyrla danska varðskipsins Hvidbjörnen hefur undanfarna daga verið á bakvakt fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar en skipið er hér við land vegna áhafnarskipta. Stafar það af því að TF-LÍF er í reglubundinni skoðun og TF-SYN er staðsett í Noregi vegna umfangsmikillar skoðunar og viðhalds sem fer senn að ljúka, sjá hér. Um tíma fyrr í vikunni var Landhelgisgæslan ekki með þyrlu til taks vegna veikinda sem komu upp í áhöfn TF-GNA  og var á meðan þyrla Hvidbjörnen tilbúin að sinna hugsanlegum útköllum fyrir Landhelgisgæsluna.

Landhelgisgæslan er með samning við danska sjóherinn sem er að jafnaði með Lynx þyrlur um borð í skipum sínum sem eiga viðdvöl hér við land. Hafa þær reglulega verið í viðbragðsstöðu fyrir þyrlur Landhelgisgæslunnar þegar upp koma lengri sjúkra eða björgunarflug.  Samstarf Landhgæslunnar og danska sjóhersins byggir á áratuga góðri samvinnu sem meðal annars felst í samæfingum, starfsmannaskiptum og samstarfi við leit og björgun í Norður Atlantshafi.

Myndin sýnir Lynx þyrlu danska sjóhersins taka eldsneyti frá varðskipinu Þór.