Glæsileg afmælisveisla flugdeildar

Mánudagur 17. október 2005

Meðfylgjandi myndir voru teknar í afmælisveislu flugdeildar Landhelgisgæslunnar sl. föstudag. 


Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fagnaði afmælinu með starfsfólki Landhelgisgæslunnar og hafði á orði að gaman væri að sjá gamla vinnufélaga í salnum en hann var sem unglingur háseti á varðskipi Landhelgisgæslunnar.  Hann tók einnig fram að hann hefði ekki heyrt eina einustu gagnrýnisrödd vegna ráðstöfunar fjár til kaupa á varðskipi og flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Í ræðu sinni minnti hann á stuðning Slysavarnarfélagins Landsbjargar við kaup á tækjakosti fyrir Landhelgisgæsluna í gegnum tíðina.


Georg Kr. Lárusson forstjóri setti hátíðina og bauð gesti velkomna.  Hann sagði stórhuga menn hafa átt frumkvæði að því að hefja flug á vegum Landhelgisgæslunnar. Einn þeirra forvígismanna hafi verið Guðmundur Kjærnested skipherra og hans væri minnst með söknuði og virðingu. Flugdeildin hafi allt frá upphafi verið öflug og helgist það fyrst og fremst af þeim ágæta mannskap sem Landhelgisgæslan hefur, alla tíð, haft á að skipa. Hjá Landhelgisgæslunni vinni fólk ekki aðeins af brennandi áhuga heldur einnig af hugsjón.  Georg hafði orð á því að þótt sum tæki Landhelgisgæslunnar væru ekki af nýjustu gerð þá væri þeim einstaklega vel við haldið. Að síðustu minnti hann á nýtt slagorð Landhelgisgæslunnar: ,,Við erum til taks".



Júlía Björnsdóttir, Hafsteinn Hafsteinsson fyrrverandi forstjóri og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra fylgjast með dagskrá kvöldsins. Hafsteinn flutti ávarp og þakkaði starfsfólki Landhelgisgæslunnar fyrir gott samstarf og óskaði til hamingju með áform um nýtt skip og flugvél. Hann sagði að einnig væri kominn tími til að huga að nýrri og öflugri björgunarþyrlu.


Gunnar Bergsteinsson fyrrverandi forstjóri flutti ávarp og minntist uppbyggingar Landhelgisgæslunnar.  Sérstaklega þó uppbyggingu flugskýlisins sem hafist var handa við byggingu á eftir að þyrlan Rán og áhöfn hennar fórst.


Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Guðjón Jónsson fv. yfirflugstjóri, Páll Halldórsson fv. yfirflugstjóri og Dagmar Sigurðardóttir lögfr.  Yfirflugstjórarnir tóku þátt í athöfn sem fólst í því að festa í sessi nöfn loftfara Landhelgisgæslunnar en með þessari athöfn afhjúpuðu yfirflugstjórarnir nöfn vélanna hafa nú verið máluð á loftförin auk skýringa á uppruna þeirra.  Benóný og Páll flugu þyrlunum Sif og Líf til landsins en Guðjón flaug flugvélinni Syn heim.


Meðal gesta afmælishátíðarinnar voru flugvélasérfræðingar frá sænsku strandgæslunni og flutti Dóróthea Lárusdóttir fulltrúi í flugdeild ávarp á móðurmáli þeirra og bauð þá velkomna.  Í þakkarskyni fyrir gott samstarf gáfu þeir Landhelgisgæslunni lukkudýr sem er Örn merktur sænsku strandgæslunni. Á myndinni er Ake Dannevik að flytja ávarp og afhenda lukkudýrið góða.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.