Yfirmaður varnarmála í Danmörku heimsótti Landhelgisgæsluna

Fimmtudagur 27. mars 2014

Yfirmaður varnarmála í Danmörku, General Peter Bartram heimsótti í morgun Landhelgisgæslu Íslands ásamt sendiherra Danmerkur á Íslandi, Frú Mette Kjuel Nielsen. Í fylgd þeirra voru yfirmenn höfuðstöðva varnarmála og flughers í Danmörku auk yfirmanns Arktisk Kommando á Grænlandi sem fer með stjórn björgunar-, öryggis og varnarmála á Norðurslóðum fyrir hönd Danmerkur.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti gestum í brú varðskipsins Þórs og fór síðan fram kynning á verkefnum og helstu áherslum Landhelgisgæslunnar. Að lokinni kynningu fóru fram viðræður um samstarf þjóðanna á sviði leitar-, björgunar-, eftirlits,  öryggis og varnarmála. Þar á meðal voru rædd málefni Norðurslóða, samstarf og ýmsar æfingar við Ísland, Grænland og Færeyjar. Auk þess voru ræddir möguleikar á að auka enn frekar víðtækt samstarf þjóðanna á þessum grundvelli.

Var um mjög gagnlegan fund að ræða og verður umræðum haldið áfram í framtíðinni. Nauðsynlegt að taka reglulega upp málefni samstarfssamnings þjóðanna SOP COOP SAGA sem felur í sér skilgreinda verkferla þjóðanna varðandi eftirlit, leit, björgun, æfingar og samvinnu.

Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa lengi átt í góðu samstarfi og er nú enn mikilvægara en áður fyrir þjóðir Norðurslóðum að starfa náið saman. Gert ráð fyrir auknum siglingum um hafsvæðið og þurfa því viðbragðsaðilar við Norður Atlantshaf að vera vel undirbúnir ef kemur að áföllum. Liður í því eru reglulegar æfingar, virk upplýsingamiðlun og greining af ýmsu tagi.


General Peter Bartram ræðir við Georg Kr. Lárusson, forstjóra
og Snorre Greil, stýrimann hjá Landhelgisgæslunni.


Viðræður fóru fram um samstarf Íslands og Danmerkur á sviði leitar-,
björgunar-, eftirlits,  öryggis og varnarmála



Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og General

Peter Bartram ásamt Sigurði Steinari Ketilssyni, skipherra varðskipsins Þór.